Grundarkirkja, Grund í Eyjafirði
Byggingarár: 1904
Byggingarár: 1904–1905.
Hönnuðir: Frumuppdrætti að kirkjunni gerði Sigtryggur Jónsson forsmiður frá Espihóli í Eyjafirði og Ásmundur Bjarnason forsmiður frá Eskifirði í samráði við Magnús Sigurðsson bónda og smið á Grund. Kirkjuna málaði norski málarinn Frederik Maximilian Müller.[1]
Athugasemd. Kirkjan snýr framstafni til suðurs.
Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 30. janúar 1978 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Grundarkirkja er timburhús, 17,15 m að lengd og 8,98 m á breidd, með tvískiptan turn við suðurstafn, 4,42 m á lengd og 5,23 m á breidd. Risþak er á kirkjunni klætt bárujárni og dropaskraut er undir þakskeggi og þakbrúnum. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir með sex gluggum hvor. Gluggar í neðri röðinni eru mun stærri en þeir efri. Tveir stórir gluggar eru á kórbaki, einn á hvorri hlið stöpuls, lítill gluggi ofan þeirra og aðrir tveir á framhlið stöpuls. Gluggarnir eru bogadregnir að ofan og í þeim misstórar rúður milli lóðréttra, láréttra og skásettra rima. Um þá eru skoraðir faldar, krappi fyrir miðju og hnúður yfir. Um kirkjuna, undir gluggum, eru tvö bönd skreytt tannstöfum, en þrjú bönd á stöpli, og skoruð borð á hornum. Stöpull ber við mæni kirkju. Á honum er flatt þak sem gengur út yfir veggi, skreytt dropum undir þakbrún en handrið umhverfis rofið á hornum af litlum áttstrendum turnum með íbjúgu þaki. Turninn er áttstrendur og á honum er tvískipt þak. Hann er klæddur skásettum panelborðum en bogagluggi er ofarlega á hverri hlið. Áttstrent bryggjumyndað þak er á turninum og yfir því lauklaga spíra á átta stoðum. Framhlið stöpuls er inndregin við kirkjudyr og undir henni fjórar súlur og milli þeirra þrír bogar en band undir lágboga yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Gengt dyrum er sáluhlið með fjórum stoðum skreytt bogum og pílárum.
Í forkirkju er stigi upp í turninn og til sönglofts og setsvala. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór undir minna formi sem hafinn er yfir kirkjugólf um tvö þrep. Herbergi eru þiljuð af kórnum hvorum megin altaris. Gangur er við hvorn hliðarvegg og þverbekkir milli ganga. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og setsvalir fram með hliðum að kór. Baklausir langbekkir eru á setsvölum. Súlur, áttstrendar að neðan, eru undir frambrún setsvala en skoraðar stoðir ofan á frambrún svala upp undir kirkjuloft. Milli stoðanna er bogadregið dróttþil. Stoðir skipta kirkjunni í miðskip og hliðarskip hvorum megin. Veggir turns, sönglofts og setsvala eru klæddir panelborðum. Efri hluti veggja framkirkju og kórs eru klæddir málningarpappa en neðri hluti þeirra ásamt handriði um söngloft og setsvalir eru klæddir spjaldaþili með klassísku skrauti. Veggir og loft eru máluð klassísku skrauti. Flatt loft er yfir setsvölum en reituð stjörnum prýdd hvelfing yfir miðskipi og önnur lægri yfir kór.
[1]Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 10. Grundarkirkja, 58-80. Reykjavík 2007.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Grundarkirkju.