Fara í efni
Til baka í lista

Hafnarstræti 11, Laxdalshús

Friðlýst hús

Byggingarár: 1795

Hönnuður: Ókunnur.[1]

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Laxdalshús er einlyft timburhús með háu risþaki, 13,36 m að lengd og 6,37 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli og veggir eru klæddir slagþili. Þak er klætt rennisúð og á framhlið þess er kvistur með skúrþaki og fjögra rúðu glugga og tveir kvistir á bakhlið. Á framhlið hússins eru fjórir sex rúðu gluggar með miðpósti og fjórir á bakhlið. Tveir þriggja rúðu gluggar eru á jarðhæð suðurstafns og á gaflhlaði er sex rúðu gluggi og þrír tveggja rúðu. Sama gluggasetning er á gaflhlaði norðan megin. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim eru vængjahurðir á okum og spjaldsettar innri hurðir og þvergluggi að ofan. Bakdyr eru á miðri bakhlið hússins. Á baklóð hússins er steinsteyptur skúr með skúrþaki.

Inn af útidyrum er forstofa, stigi og salerni undir honum, tvö herbergi eru í suðurenda, eitt í norðausturenda og eldhús við vesturhlið í norðurhelmingi hússins. Í risi er einn salur, portveggir með hliðum og lítið salerni undir súð að vestanverðu. Veggir eru klæddir standþiljum og í gluggum eru innri rammar. Bitar í lofti eru klæddir og á þeim er tvöföld borðaklæðning. Í risi er súð klædd langsúð neðan á sperrum og sperruborð upp og niður súðina yfir borðasamskeytum. Hanabjálkar eru klæddir og á þeim gólfborð. Húsið er ómálað að innan nema stigabak á salerni, veggir í stigahúsi og hanabjálkaloft í risi.  



[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 116-119. Torfusamtökin 1986.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Laxdalshúss.