Hafnarstræti 18, Tuliniusarhús
Byggingarár: 1902
Hönnuðir: Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson forsmiðir.[1]
Breytingar: Miðjukvistur byggður á tímabilinu 1910-1915.[2]
Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]
Tuliniusarhús er tvílyft timburhús með risþak, 12,0 m að lengd og 10,0 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum kjallara og miðjukvistur með risþaki er á vesturhlið hússins og nær hann upp fyrir mæni hússins. Tveggja hæða stigahús með risþaki er við bakhlið hússins norðanverða, 1,8 m að lengd og 3,0 m á breidd, og trétröppur meðfram suðurhlið. Trétröppur eru fyrir miðjum norðurgafli og aðrar vestarlega á suðurgafli og við þær sólstofa og svalir meðfram gaflinum að austurhlið og aðrar á 2. hæð. Kjallaraveggir eru múrhúðaðir, veggir 1. hæðar eru klæddir vatnsklæðningu og hornborðum en efri hæð, framhlið kvists og gaflhlöð eru klædd lóðréttum panelborðum. Hliðarveggir á kvisti eru klæddir sléttu járni. Fyrir ofan glugga og dyr 1. hæðar og á stöfnum og miðjukvisti ofan við glugga 2. hæðar er hæðarskilsband skreytt eggstöfum og stutt kröppum. Á hvorri hlið kjallara eru þrír fjögurra rúðu gluggar með miðpóst og er þverrimi ofarlega í gluggarömmum. Framhlið hússins ber tíu sex rúðu krosspóstaglugga, þar af eru tveir á kvisti og á hvorri hlið er mjór þriggja rúðu gluggi með þverpósti. Á norðurstafni eru fimm gluggar sömu gerðar og á jarðhæð eru tveir litlir tveggja rúðu gluggar og stór póstagluggi með fimm rúðum. Sex krosspóstagluggar eru á bakhlið og einn tvípósta með níu rúðum. Þriggja rúðu gluggi með þverpósti er á bakhlið nærri norðurstafni og annar á stigahúsi að norðanverðu en tveir litlir tveggja rúðu gluggar að sunnanverðu. Loks eru fjórir krosspóstagluggar á suðurstafni og á sólstofu eru litlar rúður í fíngerðum póstum og í efstu rúðum eru skásettir rimar. Útidyr eru á hvorum stafni og á suðurhlið stigahúss og á sólstofu. Þakið er bárujárnklætt og þakgluggi á því að austanverðu. Undir þakskeggi og þakbrúnum eru skornar sperrutær. Yst undir þakbrúnum eru vindskeiðar, oddskornar á neðri brún og sveigskornar á neðri enda. Hengisúla og hanabjálki eru undir mæni á stöfnum og kvisti og gagnskorið skraut fellt á milli þeirra.
[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 121-122. Torfusamtökin 1986; Minjasafnið á Akureyri. Hanna Rósa Sveinsdóttir. Viðtal 1999.
[2]Hallgrímur Einarsson. Akureyri - 1895–1930 – Ljósmyndir, 32-33.
[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Tuliniusarhús.