Fara í efni
Til baka í lista

Hafnarstræti 57, Samkomuhúsið

Friðlýst hús

Byggingarár: 1906

Hönnuðir: Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson forsmiðir.

Breytingar: Um 1920 var reist einnar hæðar viðbygging norðan við húsið og önnur vestan þess 1945. Sal breytt 1950–1951.

Hönnuðir: Ókunnir.

Sal breytt 1997.[1]

Hönnuður: Hallgrímur S. Ingólfsson innanhúsaarkitekt.[2]

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]

 

Samkomuhúsið er tvílyft timburhús á steinhlaðinni og steyptri jarðhæð og með lágu bárujárnsklæddu risþaki, 27,70 m að lengd. Meginhluti þess er 10,30 m á breidd en norðurendi 13,46 m. Framhlið hússins er sett burststöfnum við hvorn enda og fyrir miðju húsi gengur ferstrendur turnstallur upp úr þaki og á honum áttstrendur turn með áttastrenda turnspíru sem sveigist út að neðan. Einlyft timburviðbygging með skúrþaki og á steinsteyptri jarðhæð er við norðurenda hússins, 7,04 m að lengd og 13,46 m á breidd. Við bakhlið hússins er steinsteypt einnar hæðar viðbygging á kjallara og með flötu þaki, 19,70 m að lengd og 3,54 m á breidd. Jarðhæð er múrhúðuð, steinhleðsla dregin í múrinn og á framhlið eru múraðar hornsúlur og flatsúlur, rásaðar og sneiddar á brúnum. Veggir hússins og viðbyggingar við norðurhlið eru klæddir láréttum plægðum og strikuðum borðum og rásuðum og sneiddum hornborðum og flatsúlum sem marka breidd stafna og turns. Vatnsbretti eru neðst á veggjum og undir gluggum á 2. og 3. hæð og ganga þau umhverfis húsið að viðbygginu við bakhlið. Á húsinu eru T-pósta gluggar; 12 á jarðhæð, 18 á 2. hæð og 16 á 3. hæð. Í þeim eru tveir lóðréttir póstar sem skipta neðri hluta glugga í mjóa rúðu til hliða og breiða fyrir miðju. Ofan við þverpóst er þverrammi með níu misstórum lóðréttum og láréttum rúðum milli mjórra rima. Um glugga 2. og 3. hæðar eru faldar og krappar undir efra vatnsbretti. Á bakhlið hússins eru fjórir gluggar með lóðréttum póstum og tveimur eða þremur rúðum og einn einnar rúðu gluggi. Þrennar útidyr eru á jarðhæð hússins og  tvær á bakhlið þriðju hæðar. Undir þakskeggi og þakbrúnum eru skornar sperrutær og gaflskraut yst undir þakbrún stafna; gagnskorið skrautverk milli þriggja hengisúlna og tveggja hanabjálka og er sá neðri rofinn fyrir miðju og skrautverkið bogadregið á neðri brún. Fánastöng er yst á mæni hvors stafns. Turninn er klæddur sléttu járni og á hverja hlið hans eru felldir faldar um falska málaða krosspóstaglugga. Turnspíra er klædd sléttu járni og upp af henni er stöng með hnúði neðst og efst og hnetti fyrir miðju. Veggir viðbyggingar við bakhlið eru múrhúðaðir og á henni eru fjórir einnar rúðu gluggar og tvennar dyr.



[1]Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Af norskum rótum. Akureyri – höfuðstaður Norðurlands, 200-204. Mál og menning. Reykjavík 2003.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn, Samkomuhúsið, Hafnarstræti 57, Akureyri.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Samkomuhússins á Akureyri.