Fara í efni
Til baka í lista

Helgafellskirkja, Helgafellssveit

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1903

Hönnuður: Sveinn Jónsson forsmiður frá Djúpadal.[1]

Breytingar: Turnspíran fauk af turninum 1924 en lægri og svipminni turn byggður í staðinn. Árin 1986–1989 fóru fram endurbætur á kirkjunni og turinn var þá endurbyggður í upprunalegri mynd.

Hönnuður: Pétur H. Ármannsson arkitekt. [2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Helgafellskirkja er timburhús, 10,15 m að lengd og 6,40 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 2,52 m að lengd og 2,61 m á breidd. Stöpull er ferstrendur og á honum er lágt píramítaþak. Á því er mjór áttstrendur burstsettur turn með hljómop á framhlið og áttstrendri spíru yfir. Kirkjuþak er krossreist og klætt bárustáli en turn og turnþök eru klædd sléttu járni. Stöpull er klæddur bárustáli og kirkjuveggir eru ýmist klæddir bárujárni eða bárustáli. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar, einn á hvorri hlið stöpuls og einn á framhlið uppi yfir dyrum. Í þeim er T-laga póstur með tveimur þriggja rúðu römmum neðan þverpósts en fjórum rúðum ofan hans undir boga. Efst á framhlið stöpuls er hringgluggi. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Í forkirkju er stigi til setulofts og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af dyrum er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Innst er hár kórpallur, sveigður á framhlið og girtur handriði með renndum pílárum. Setuloft á tveimur stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og er opið af loftinu fram í stöpul. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er strikasylla uppi undir borðaklæddri hvelfingu stafna á milli en flatt loft í stöpli undir turn.


[1]ÞÍ. Bps. C.V. 113. Bréf til biskups úr Snæ. 1904. Byggingarreikningur Helgafellskirkju 1903, fylgiskjöl 3 og 16.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Helgafellskirkja; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands. Helgafellskirkja, handrit 2009.