Hjarðarholtskirkja, Laxárdal, Laxárdalur
Byggingarár: 1904
Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Hjarðarholtskirkja er timburhús, krosslaga að grunnformi, 10,06 m að lengd og á breidd. Þakið er krossreist og á milli krossálma í norðvesturhorni er ferstrendur burstsettur turn með háu píramítaþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd en turnþak sinkklætt og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norður-, suður- og vesturstöfnum kirkju eru þrír samlægir burstsettir gluggar og aðrir tveir uppi á stöfnunum. Einn gluggi sömu gerðar er á hliðarveggjum krossálma, einn á norðurhlið turns og annar heldur minni yfir dyrum. Í gluggum eru rimar úr steypujárni. Efst undir þakbrúnum kirkju og turns eru skammbitar og dvergur upp undir mæni og hæðarskilsband sett kröppum ofarlega á turni undir burstsettum hljómopum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og burstsett skyggni yfir.
Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, þverbekkir í miðri kirkju en langbekkir í norður- og suðurálmum. Kór er í austurálmu, hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep, en söngstúka í vesturálmu. Veggir eru klæddir málningarpappír og á innhornum eru skoraðar flatsúlur en málaður skrautbekkur efst á veggjum. Loft yfir kirkjunni er opið upp í rjáfur og klætt plægðum borðum neðan á sperrur en sýnilegir skammbitar undir súð.[1]Bréfasafn Rögnvalds Ólafssonar. Bréf dagsett 13. ágúst 1903 til Kristjáns bróður Rögnvalds. Afrit í vörslu höfundar; ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 123. Bréf 1906. Lýsing á Hjarðarholtskirkju í Dölum, er byggð var árið 1904; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Hjarðarholtskirkja, handrit 2009.