Fara í efni
Til baka í lista

Hofskirkja, Öræfi

Hofskirkja, Öræfum
Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1883

Byggingarár: 1884.

Hönnuður: Páll Pálsson snikkari.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru stafnar kirkjunnar bikaðir og hún ómáluð að innan en skömmu fyrir 1905 var kirkjan máluð utan og innan.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1951.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hofskirkja er torf- og timburhús, og er timburhúsið 10,26 m að lengd og 5,05 m á breidd en torftóftin er um 11,5 m að lengd og 9 m á breidd. Á kirkjunni er rismikið þak lagt torfi. Hliðarveggir og kórbak, upp undir glugga, eru hlaðin úr torfi og grjóti. Kórbaksþilið yfir torfvegg og allur framstafninn eru klædd listaþili. Á kirkjunni eru tvöfaldar vindskeiðar með afturáslætti að ofan. Á kórbaki eru tveir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og tveir á framstafni hvor sínum megin kirkjudyra en yfir þeim er lítill tveggja rúðu gluggi. Í þekjunni sunnan megin er gluggi yfir prédikunarstól kirkjunnar. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð. Yfir gluggum og dyrum er bjór.

Inn af kirkjudyrum er gangur inn að kór. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs klætt spjaldaþili að neðan en randskornum grindum að ofan upp undir þverslá. Prédikunarstóll er framan kórþils undir súðarglugga. Bekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir umhverfis í kór. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Afþiljað loft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju er borðaklædd hvelfing yfir innri hluta og kór.



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 49. Bréf 1885. Reikningur yfir kostnað er leiddi af endurbyggingu Hofskirkju árið 1884, með fylgiskjölum.

[2]Þjms. Húsasafn. Skjalasafn. Hofskirkja í Öræfum; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hofskirkja í Öræfum.