Fara í efni
Til baka í lista

Hofskirkja, Álftafirði, Djúpavogshreppi

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1896

Hönnuður: Lúðvík Jónsson forsmiður á Djúpavogi.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru kirkjuveggir klæddir plægðum borðum en turn og kirkjuþak klædd bárujárni og á hvorri hlið voru þrír gluggar. Árið 1907 voru stafnarnir klæddir bárujárni og þakturn rifinn og forkirkjuturn reistur 1929. Veggir voru múrhúðaðir árið 1954 og turn hækkaður og turnþaki breytt 1954. Ári síðar skrautmáluðu Jón og Gréta Björnsson kirkjuna innan. Árið 1969 var múrhúðun brotin af og veggir klæddir bárujárni og nýir breyttir gluggar settir í kirkjuna og veggir klæddir plötum að innan.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hofskirkja er timburhús, 8,78 m að lengd og 4,99 m á breidd, með turn við vesturstafn, 2,11 m að lengd og 2,20 m á breidd. Þak kirkju er krossreist en hátt píramítaþak á turni sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er bárujárnsklædd, turnþak klætt sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir stórir gluggar með lóðréttum og skásettum póstum en einn póstagluggi á framhlið turns yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í bökum innstu bekkja sem klædd eru niður í gólf. Í kórdyrum eru kórstafir, ferstrendir að neðan en áttstrendir að ofan, og bogi yfir. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og bekkir með veggjum í kór. Veggir eru klæddir sandblásnum, rásuðum krossviðarplötum og yfir kirkjunni er borðaklætt sperruþak opið upp í rjáfur.


[1]ÞÍ. Bps. C, V. 41. Bréf 1897. Reikningur yfir byggingarkostnað Hofskirkju í Álftafirði sumarið 1896, ásamt fylgiskjölum.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hofskirkja í Álftafirði.