Hofskirkja, Höfðaströnd

Byggingarár: 1870
Hönnuður: Vigfús Reykdal forsmiður.
Saga
Fyrst er minnst á kirkju á Hofi árið 1186 þegar Guðmundur Arason, síðar biskup á Hólum, er staðarprestur þar. Kirkjan var helguð Pétri postula og Maríu mey.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Hofskirkja er timburhús, 13,67 m að lengd og 5,16 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 2,63 m að lengd og 3,21 m á breidd. Þök eru krossreist og bárujárnsklædd. Upp af framstafni er ferstrendur turn með lágt píramítaþak og spíra með krossi upp af. Undir honum er lágur stallur. Turninn er klæddur sléttu járni og listum. Bogadregnir faldar um falska hlera eru á þremur hliðum. Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum og er stöguð niður á hliðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír krosspóstagluggar með fjórum rúðum, tveir á kórbaki og einn á hvorri hlið forkirkju. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.
Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn að kór. Aftursættir þverbekkir eru hvorum megin gangs en langbekkir og veggbekkir umhverfis í kór að altari. Söngpallur er fremst í framkirkju norðan megin, girtur handriði með renndum pílárum. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum, vesturgafl kirkju klæddur spjaldaþili en kirkjuveggir annars klæddir standþiljum. Efst á veggjum er strikasylla uppi undir panelklæddri hvelfingu stafna á milli.
Heimild
Kirkjur Íslands, 6. bindi, Reykjavík 2005. bls. 89-116