Fara í efni
Til baka í lista

Hofsstaðakirkja, Viðvíkursveit

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1905

Hönnuður: Jón Björnsson forsmiður frá Ljótsstöðum.

Saga

Elsta heimild um kirkju á Hofsstöðum er kirknatal Jóns biskups Vilhjálmssonar frá 1429. Í vísitasíu Jóns þremur árum síðar kemur fram að kirkjan var helguð Maríu.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Hofsstaðakirkja er timburhús, 7,03 m að lengd og 5,78 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 2,05 m að lengd og 2,21 m á breidd. Bárujárnsklætt risþak er á kirkju og hún stendur á steinsteyptum kjallara. Dyr eru að honum á norðurhlið en lágur gluggi á austurhlið. Kirkjan er klædd láréttri strikaðri vatnsklæðningu, hornborðum og undir þakskeggi eru strikaðir sperruendar og band skreytt tannstöfum, ávölum á neðri brún, og raðbogum sem leitt er fyrir stafna og stöpul. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Stöpull nær upp að mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Upp af honum rís áttstrendur opinn burstsettur turn og á honum áttstrend spíra klædd sléttu járni. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp á setuloft í stöplinum sem opið er að framkirkju og girt handriði með skornum grindum. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir undir oddboga. Inn af þeim er gangur og aftursættir bekkir hvorum megin hans. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Strikuð sylla er efst á veggjum og leidd fyrir gafla. Panelklædd hvelfing er yfir kirkju stafna á milli.

Heimild

Kirkjur Íslands, 6. bindi, Reykjavík 2005. bls. 119-156