Fara í efni
Til baka í lista

Hofteigskirkja, Norður-Hérað, N-Múlasýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1883

Hönnuður: Jón Magnússon forsmiður.[1]

Breytingar: Um 1970 voru veggir klæddir innan með spónaplötum, nýir breyttir gluggar og bekkir settir í kirkjuna og nýtt gólf úr mjóum borðum lagt í hana.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hofteigskirkja er timburhús, 8,90 m að lengd og 4,69 m á breidd, með tvískiptan turn við framstafn, 1,52 m að lengd og 3,07 m á breidd. Stöpull er allbreiður og á honum rismikið þak upp að ferstrendum turni. Á honum er risþak en krossreist þak á kirkju. Þök eru klædd bárujárni, veggir listaþili og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með sex rúðum en skásettur ferstrendur gluggi á framstafni turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar og glerjaðar vængjahurðir. Inn af þeim er gangur, þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Setsvalir eru yfir fremsta stafgólfi framkirkju og klæddur stigi við vesturgafl sunnan megin. Á svölunum eru tveir langbekkir og dyr á gaflinum að turni. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum og yfir henni er reitaloft. Í framkirkju og kór eru veggir klæddir spónaplötum en kórgafl undir hvelfingu klæddur póstaþili. Efst á veggjum er stölluð og ávöl sylla undir reitaskiptri hvelfingu yfir innri hluta framkirkju og kór. Yfir setsvölum er reitaskipt plötuklætt risloft.


 


[1]ÞÍ. Bps. C, V. 31. Bréf 1885. Reikningur yfir byggingu Hofteigskirkju árið 1883, ásamt fylgiskjölum.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hofteigskirkja.