Fara í efni
Til baka í lista

Hóladómkirkja, Hólar

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1763

Byggingarár: 1757–1763.

Hönnuður: Laurids de Thurah hirðarkitekt.

Breytingar: Teikningar de Thurah gerðu ekki ráð fyrir forkirkju né skrúðhúsi en múrarameistari kirkjunnar Sabinsky, teiknaði hvorutveggja og byggði. Skrúðhúsið var rifið 1828. Þak kirkjunnar var í öndverðu klætt rennisúð en var klætt bárujárni skömmu fyrir 1890 og loks eir 1949.

Steinsteyptur turn var reistur norðan við kirkjuna 1950. Hönnuður: Sigurður Guðmundsson arkitekt.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hóladómkirkja er steinhlaðið hús, 20,60 m að lengd og 9,01 m á breidd, með stöpul við vesturstafn, 5,05 m að lengd og 6,08 m á breidd. Kirkja og stöpull eru undir krossreistu eirklæddu þaki. Veggir kirkju eru múrsléttaðir en rauð sandsteinshleðsla stöpuls sýnileg. Sökkulbrún er neðarlega á veggjum og múrbrúnir undir þakskeggi. Á norðurhlið kirkju eru sjö gluggar en sex á suðurhlið og dyr á miðjum suðurvegg, frúardyr, og fyrir þeim vængjahurðir. Í gluggum er miðpóstur og tveir tólfrúðu rammar. Á kórbaksstafni er lítill gluggi með sex rúðum. Einn gluggi er á hvorri hlið stöpuls og tveir á framhlið, sinn hvorum megin dyra. Í þeim er þverpóstur og tveir níurúðu rammar. Fimm hljómop eru á stöplinum, þrjú á framstafni en eitt á hvorri hlið yfir glugga og hringop efst á stafninum. Fyrir kirkjudyrum er okahurð klædd tígulsettum panelstöfum og yfir henni hvít marmaratafla með áletrun til heiðurs Friðriki V konungi Danmerkur og Íslands sem stóð fyrir byggingu dómkirkjunnar.

Í stöpli er klukknastóll og tvær klukkur í ramböldum. Stigi er í suðausturhorni upp að dyrum að kirkjulofti. Að framkirkju er okahurð. Fremst í framkirkju hvorum megin dyra er pípuorgel en gangur inn kirkjuna að kór. Þvergangur er fyrir miðri kirkju og skírnarsár á honum norðan megin gegnt frúardyrum. Bekkir með spjaldaklæddum bökum eru hvorum megin gangs, tvísættir bekkir framan þvergangs en tvísættir hefðarbekkir við kórþil með klæddum bökum og hurð fyrir. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, þiljað neðanvert en með randskornum og gegnskornum grindum ofanvert. Prédikunarstóll með himni yfir er framan kórþils sunnan megin nærri frúardyrum. Fyrir miðjum kórgafli er steinhlaðið altari, randskornar grindur í grátum framan þess en yfir því vönduð altarisbrík. Veggir forkirkju er hvítkalkaðir en kirkjuveggir múrsléttaðir. Yfir forkirkju er loft opið upp í rjáfur en yfir kirkju slétt gipsloft neðan á bitum og undir því strikuð múrbrún efst á veggjum.



[1]Þorsteinn Gunnarsson. Um Hóladómkirkju, 9-62; Kirkjur Íslands 6, Hóladómkirkja, 166-189. Reykjavík 2005.