Fara í efni
Til baka í lista

Hólskirkja, Bolungarvík

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1908

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Athugasemd: Efni til kirkjusmíðinnar var tilsniðið í Noregi.

Breytingar: Viðbyggingar hafa verið smíðaðar hvorum megin við turn.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hólskirkja er timburhús, 11,39 m að lengd og 7,62 m á breidd, með turn við vesturstafn, 0,25 m að lengd og 2,63 m á breidd. Viðbyggingar standa hvorum megin hans, 2,28 m að lengd og 2,08 m á breidd. Risþak er á kirkju en hátt píramítaþak á turni sem gengur út undan sér að neðan. Kirkjan er klædd bárujárni, turnþak sléttu járni. Hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir með þremur gluggum hvor, þeir neðri ívið stærri. Í gluggum er krosspóstur og fjórar rúður. Yfir þverpósti eru burstlaga rammar um rúður. Lítill gluggi er á hvorri framhlið turnviðbygginga og einn á framhlið turns. Efst á turnhliðum eru þrjú hljómop með hlera fyrir og efst á kórbaki er gluggaop með hlera fyrir. Turngluggar og hljómop eru burstsett. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og burstgluggi yfir. 

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir. Inn af þeim hvorum megin eru sveigðir stigar upp á söngloft með þverum framgafli og setsvalir inn að kórgafli. Prédikunarstóll er fyrir miðjum kórgafli, innan og ofan altaris. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en langbekkir á setsvölum. Stoðir eru undir setsvölum og ganga áfram upp undir flatt loft yfir allri kirkjunni. Þær skipta henni í þrjú skip; miðskip og hliðarskip hvorum megin. Veggir og loft eru klædd strikuðum panelborðum og skreytt máluðum táknmyndum og laufmunstri.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hólskirkja í Bolungarvík.

[2]ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.