Fara í efni
Til baka í lista

Holtastaðakirkja, Engihlíðarhreppi, A-Húnavatnssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1893

Byggingarár: 18921893.

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru þök og veggir klædd pappa en turnþak sinkklætt og kirkjan stóð á steinhlöðnum sökkli. Þök voru bárujárnsklædd um 1905 en veggir 1929 og sökkull steinsteyptur þegar gert var við kirkjuna á árunum 19761981. Árið 1978 skrautmálaði Jón Valgarð Winther Jörgensen kirkjuna að innan.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Holtastaðakirkja er timburhús, 8,28 m að lengd og 7,01 m á breidd, með kór, 2,67 m að lengd og 2,62 m á breidd, og tvískiptan turn við vesturstafn, 2,54 m að lengd og 2,62 m á breidd. Þök kirkju og kórs eru krossreist. Kirkjan er klædd bárujárni, turnþök og hliðar turns sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni og einn á hvorri hlið kórs. Minni oddbogagluggi er á framhlið stöpuls og gluggi með oddboga efst. Stöpull nær upp yfir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Á honum er áttstrendur burstsettur turn með lágt áttstrent þak. Bogadregnir faldar um fölsk hljómop eru á fjórum turnhliðum en blómskurður efst á hverri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir.

Í forkirkju norðan megin er stigi upp á forkirkjuloft og dyr að setulofti. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, oddbogadregnar að ofan. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Einfaldar flatsúlur eru í kórdyrum og bogi yfir málaður blómskreyti. Aftursættir þverbekkir eru hvorum megin gangs. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju. Þrjár járnstangir eru í gegnum frambrún þess upp í gegnum hvelfingu. Veggir forkirkju eru klæddir standþiljum. Framkirkja og kór eru klædd strikuðum panelborðum og efst á veggjum er ávalur listi undir hvelfingu og sylla skreytt máluðum Alexandersbekk. Hann er leiddur fyrir austurgafl að kórdyrum og fylgir einnig boga hvelfingar. Yfir framkirkju er panelklædd hvelfing og önnur minni yfir kór.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 161. Bréf 1893. Kostnaður við byggingu Holtastaðakirkju árin 1891-1893 ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 161. Bréf 1893. Afskrift af lýsingu nýgjörðrar kirkju á Holtastöðum í Langadal í Húnavatnsprófastsdæmi, tekin við vísitasíu 3. júní 1893; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 8. Holtastaðakirkja, 164-176. Reykjavík 2006.