Hrafnseyrarkirkja, Hrafnseyri
Byggingarár: 1886
Byggingarár: 1885–1886.
Hönnuður: Árni Sveinsson forsmiður.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Hrafnseyrarkirkja er timburhús, 7,67 m að lengd og 5,80 m á breidd. Lágt risþak er á kirkjunni. Upp af vesturstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrendra spíru. Hálfsúlur eru á turnhornum og bogadreginn hleri fyrir hljómopi á framhlið turns og undir honum lágur breiður stallur. Kirkjan er klædd bárujárni en turn sléttu járni. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með mjóum rimum um sex rúður. Efst á framstafni og upp á turnstall er gluggi sömu gerðar en minni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim strikuð brík.
Inn af kirkjudyrum er gangur, þverbekkir hvorum megin hans og veggbekkir umhverfis í kór. Yfir altari er innfelldur bogadreginn flötur með strikuðum földum. Afþiljað loft á tveimur stoðum er yfir fremri hluta framkirkju og stig við framgafl sunnan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og yfir innri hluta framkirkju og kór er panelklædd hvelfing.[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 247. Reykjavík 1998.