Fara í efni
Til baka í lista

Hraunskirkja, Keldudalur, Dýrafirði

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1885

Hönnuður: Sigurður Jónsson snikkari.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1980.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hraunskirkja er timburhús, 7,71 m að lengd og 4,53 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt spæni en veggir listaþili. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar innri hurð. 

Inn af kirkjudyrum er gangur, baklausir þverbekkir hvorum megin hans og veggbekkir umhverfis í kór. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Yfir kirkjunni eru þverbitar og loft með skammbitum opið upp í rjáfur, klætt langsúð ofan á sperrur. Kirkjan er ómáluð að innan.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 139. Bréf 1887. Útdráttur úr vísitasíu Hraunskirkju 13. september 1887; Reikningur yfir byggingarkostnað Hraunskirkju ár 1885. 

[2]Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Hraunskirkja í Keldudal.