Fara í efni
Til baka í lista

Hressingarhælið Kópavogi

Friðlýst hús

Byggingarár: 1926

1926

Höfundur

Guðjón Samúelsson

Byggingarefni

Steinsteypt

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 22. október 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra og innra byrðis hússins.


Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, og var það friðað í október 2012.

Árið 1925 fékk Kvenfélagið Hringurinn landspildu úr jörðinni og tók að reisa vinnu- og hressingarhæli. Uppdrætti af byggingunni gerði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins og voru þeir undirritaðir í maí 1925. Kristinn Sigurðsson múrarameistari byggði húsið, sem er tveggja hæða, á kjallara og með valmaþaki, hver hæð um 128 fermetrar að grunnfleti. Hressingarhælið var vígt í nóvembermánuði árið 1926. Húsaskipan er þannig lýst við opnun hælisins: Á neðri hæð er dagstofa, herbergi hjúkrunarkonu og þrjár svefnstofur vistmanna; í miðju húsi er opið rými upp úr með rúmgóðum stigagangi og stigapalli á efri hæð þar sem einnig er dagstofa og sex svefnstofur. Svefnherbergin eru misstór, minnst fyrir tvo og stærst fyrir átta. Í kjallara er eldhús og borðsalur, þvottahús, geymslur og baðklefi og vistarverur starfsfólks. Á hælinu dvöldust að jafnaði 25 berklasjúklingar sem höfðu lokið meðferð en skorti þrótt til að fara út á vinnumarkaðinn. Nálægð við Vífilsstaði hafði áhrif á staðarvalið en hælið naut læknisþjónustu þaðan. Fyrsta vindrafstöð landsins, staðsett á Borgarholti, sá hælinu fyrir rafmagni fram til ársins 1928. Árið 1939 hætti Hringurinn rekstri hælisins og gaf Ríkinu húsið með gögnum og gæðum. Skömmu síðar var starfsemi holdveikraspítalans flutt í húsið er breski herinn yfirtók Laugarnesspítala. Var sú starfsemi í húsinu til ársins 1974.  Eftir það starfaði Þroskaþjálfaskóli Íslands í húsinu fram til árins 1984. 

Hressingarhælið í Kópavogi hefur afar mikið menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um framlag Hringskvenna til íslenskra heilbrigðismála og vegna þeirrar starfsemi sem rekin var í húsinu um árabil. Byggingin hefur jafnframt mikið listrænt gildi sem heillegt dæmi um verk Guðjóns Samúelssonar, eins merkasta arkitekts þjóðarinnar á 20. öld. Þá hefur byggingin einstakt sögulegt og umhverfislegt gildi fyrir Kópavogbæ. Hælið er ein elsta og merkasta byggingin í bæjarfélaginu, sem byggðist að mestu eftir seinni heimsstyrjöld.


Heimildir:

Björg Einarsdóttir (2002). Hringurinn í Reykjavík. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Björg Einarsdóttir (2006, 8. maí). Sögufrægt hús í Kópavogi, hressingarhæli Hringsins 1926–1940. Morgunblaðið.

Garðar H. Guðjónsson, Kristinn Dagur Gissurarson og Margrét Björnsdóttir (2012, 20. júní). Hvað skal gera? – Hvert skal stefna? Greinargerð starfshóps um Kópavogsbæinn – Kópavogshælið – Kópavogstún.

Pétur H. Ármannsson (2009, 10. febrúar). Hressingarhæli Hringsins í Kópavogi. Minnisblað um varðveislugildi. Í Gagnasafni Húsafriðunarnefndar.