Fara í efni
Til baka í lista

Hrunakirkja, Hrunamannahreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1865

Byggingarár: 1865-1866.

Hönnuður: Sigfús Guðmundsson forsmiður frá Skúmsstöðum á Eyrarbakka.[1]

Breytingar: Í öndverðu voru veggir klæddir listaþili og þak listasúð og á kirkjunni voru gluggar með níu smárúðum undir þverpósti en þvergluggi ofan hans með bogarimum. Turn var ferstrendur og með risþaki.

Gluggum var breytt í núverandi form 1903.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Kirkjan var klædd bárujárni og turni breytt 1908.[3]

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hrunakirkja er timburhús, 14,83 m að lengd og 6,00 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með hárri píramítalagaðri turnspíru. Hann stendur á lágum stalli með kröppum undir þakskeggi. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar, tveir á framstafni yfir dyrum. Í þeim er T-laga póstur og tveir þriggja rúðu rammar neðan þverpósts en bogarimar í þverramma að ofan. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi með bogarimum en tveir hálfgluggar hvorum megin þeirra.

Yfir þvera kirkju er þrískipt forkirkja; fatahengi að sunnanverðu, forstofa og stigi til setulofts að norðanverðu. Á milliþilinu eru dyr að framkirkju og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir. Inn af þeim er gangur að kór og bekkir hvorum megin hans en lausir bekkir í kór. Yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju er setuloft og tvær stoðir undir frambrún þess. Forkirkja er klædd innan panelborðum og neðri hluti veggja í framkirkju og kór er klæddur panelborðum en efri hluti reitaþiljum. Yfir setulofti er súðarloft klætt spjaldaþili og panelklætt loft undir skammbitum yfir miðhluta. Yfir innri hluta framkirkju og kór er reitaskipt hvelfing en reitaloft undir setulofti.


[1]ÞÍ. Bps. C. V, 70 B. Bréf 1867. Byggingarreikningur Hrunakirkju 1865-1866 ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/7 og 10. Hruni 1866 og 1903.

[3]ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/11. Hruni 1909; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 1. Hrunakirkja, 62-84. Reykjavík 2001.

[4]Hörður Ágústsson. Viðtal 2000.