Fara í efni
Til baka í lista

Húsavíkurkirkja, Garðarsbraut

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1907

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Breytingar: Kirkjan var ómáluð að innan fram til 1924 en þá málaði hana Freymóður Jóhannsson listmálari.[1]

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 20. desember  1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Húsavíkurkirkja er timburhús, krosslaga að grunnformi, 15,36 m frá austri til vesturs og 15,05 m frá norðri til suðurs. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Krossreist þak er á krossálmum og hár ferstrendur turn er í norðvesturhorni milli krossálma. Efst undir þakbrúnum kirkju og turns eru skammbiti, dvergur og skástoðir; opið er milli þeirra á turni en þiljað milli þeirra á kirkju. Turninn er burstsettur og á honum há ferstrend spíra með litlum kvisti ofarlega á hverri hlið. Í suðausturhorni er skrúðhús og bakinngangur. Þök eru bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni. Veggir eru klæddir láréttri panelklæðningu á neðri hæð upp undir hæðarskilsband umhverfis kirkjuna en lóðréttri panelklæðningu ofan þess. Á kirkjunni og turni eru smárúðóttir burstsettir gluggar. Ofarlega á stafni kórbaks eru þrír samlægir gluggar en á hverjum hinna þriggja stafna krossarmanna eru þrír samlægir gluggar niðri en tveir uppi á stöfnunum. Á hliðarveggjum krossstúka er einn gluggi, tveir á austurhlið skrúðhúss og yfir þeim þrír litlir gluggar uppi undir þakskeggi og yfir bakdyrum. Þrír gluggar eru á turninum og burstsett hljómop efst en undir þeim tvö hæðarskilsbönd og milli þeirra hlerar með hringlaga opum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og burstsett skyggni yfir.

Í forkirkju er stigi að söngsvölum í vesturálmu og setsvölum í norðurálmu og tvennar dyr að framkirkju. Þverbekkir eru í miðri kirkju og vesturálmu gegnt kór í austurálmu en langbekkir í suður- og norðurálmu. Í skrúðhússtúku er stig til setsvala í suðurálmu. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um þrjú þrep og á setsvölum eru misháir pallar undir bekkjum. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum en kór málningarpappa milli veggstoða. Yfir álmum er risloft klætt standandi panelklæðningu og sýnileg eru langbönd, sperrur, skammbitar og þverbönd.


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 266. Reykjavík 1998.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Húsavíkurkirkju.