Fara í efni
Til baka í lista

Hvanneyrarkirkja, Hvanneyri, Andakíl, Borgarfirði

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1905

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Breytingar: Kirkjubekkir voru smíðaðir upp árið 2005, bríkur voru notaðar aftur en setfjalir breikkaðar og bekkjum fækkað.

Hönnuður: Páll V. Bjarnason arkitekt.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hvanneyrarkirkja er timburhús, 8,82 m að lengd og 6,32 m á breidd, með tvískiptum turni við framstafn, 2,50 m að lengd og 2,61 m á breidd. Á kirkjunni er krossreist bárujárnsklætt þak. Stöpull er ferstrendur og klæddur stoðum og slám efst og á honum er lágt píramítaþak. Á því stendur ferstrendur burstsettur turn með hornstöfum og háu píramítaþaki. Turnhliðar eru upp af hornum stöpuls en hornstafir upp af miðju stöpulveggja. Veggir eru klæddir báruðum stálplötum og kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír oddbogagluggar. Í þeim er T-laga póstur, lóðréttur og láréttir rimar um átta rúður hvorum megin miðpósts og yfir þverpósti tvær oddbogarúður en hringrúða efst. Ofarlega á framhlið stöpuls eru tveir mjóir blindgluggar, timburklæddir að neðan en undir oddboga er laufmyndaður gluggi. Svipaður frágangur er á fjórum hljómopum turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og smárúðóttur oddbogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp í turninn og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn að þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Flatsúlur eru milli glugga og deila veggjum í þrjá jafna hluta. Efst á þeim er sylla uppi undir panelklæddri hvelfingu sem er deilt í þrjá hluta með borðum þvert á klæðninguna.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 93. Bréf 1908. Skýrsla um kirkjur í Borgarfjarðarprófastsdæmi í fardögum árið 1908.

[2]ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.

[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 93. Bréf 1905. Lýsing Hvanneyrarkirkju 1905; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Akraneskirkja, 135-150. Reykjavík 2009.