Fara í efni
Til baka í lista

Illugastaðakirkja, Hálshreppur, S-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1860

Byggingarár: 1860–1861.

Hönnuður: Jón Sigfússon forsmiður og bóndi á Sörlastöðum.

Breytingar: Forkirkja reist 1953.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Illugastaðakirkja er timburhús, 9,65 m að lengd og 5,53 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 2,03 m að lengd og 3,53 m á breidd. Þakið er krossreist og trékross upp af framstafni en á forkirkju er risþak. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum og tveir á kórbaki hvorum megin altaris. Í þeim er miðpóstur og þverrimar. Ofarlega á kórbaki er minni póstgluggi með tveimur þriggja rúðu römmum en lítill fjögurra rúðu gluggi á framstafni. Kvistur með fjögurra rúðu glugga er á suðurhlið. Steinsteyptur skorsteinn er við norðurhlið og steinsteypt rör upp þakið. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir, smárúðóttar að ofan. Yfir þeim er hringgluggi.

Spjaldahurð er að framkirkju og gangur inn af henni að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili. Spjaldaþil er í kórþili að neðan en renndir pílárar að ofan og bogrimar ofan á þverslá. Kórstafir eru áttstrendir að neðan en sívalir að ofan og bogi á milli þeirra yfir kórdyrum. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og stólstoðir og bogi í stóldyrum. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Setuloft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og stigi í suðvesturhorni. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum, vesturgafl á setulofti er klæddur standþili en framkirkja og kór eru klædd spjaldaþili. Brjóstlisti er á miðsyllu við neðri brún glugga. Loft yfir kirkjunni er opið upp í mæni og klætt skarsúð á sperrur.



[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Illugastaðakirkja.