Fara í efni
Til baka í lista

Ingjaldshólskirkja, Ingjaldshólskirkja

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1903

Hönnuður: Jón Sveinsson forsmiður.[2]

Breytingar: Turn hækkaður og þaki hans breytt, setuloft, setpallar og nýir bekkir smíðuð í kirkjuna 1914. Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[3] Nýir breyttir bekkir voru smíðaðir í kirkjuna 1978, gólf steinsteypt að hluta og söngloft fært að hluta innar í bilið milli setpalla.

Hönnuður: Helgi Hallgrímsson hannaði kirkjubekki.[4]

Byggt við turn 1994–1996 og gerð tenging neðanjarðar við safnaðarheimili.

Hönnuður: Magnús Ólafsson arkitekt.[5]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Ingjaldshólskirkja er steinsteypuhús, 12,40 m að lengd og 7,46 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,08 m að lengd og 3,34 m á breidd, og turn í vesturstafni, 0,44 m að lengd og 3,34 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni en á turni er burstsett píramítaþak klætt sléttu járni. Veggir eru  múrhúðaðir og sökkulbrún á þeim neðarlega. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn heldur minni á hvorri hlið kórs. Á framhlið turns yfir kirkjudyrum eru tveir litlir gluggar, einn á hvorri turnhlið, og loks einn sömu stærðar hvorum megin á hliðarveggjum forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Í forkirkju sunnan megin er stigi til sönglofts yfir fremsta hluta framkirkju og setsvala inn með hliðarveggjum. Að auki liggur stigi til gangs neðanjarðar að safnaðarheimili suðvestan kirkjunnar. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Látlausar flatsúlur eru í kórdyrum og bogi yfir og í honum hár lokasteinn. Hvorum megin gangs eru bekkir og prédikunarstóll í suðausturhorni framkirkju og afþiljað skrúðhús í horninu innan hans. Veggir eru sléttaðir og efst á þeim er strikasylla undir borðaklæddum hvelfingum framkirkju og kórs.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V  113. Bréf 1906. Byggingarreikningur Ingjaldshólskirkju ásamt fylgiskjölum.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 395. Reykjavík 1998; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Ingjaldshólskirkja, handrit 2009.

[3]ÞÍ.Skjalasafn prófasta.Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6 og 7. Ingjaldshóll 1911, 1913 og 1917.

[4]Ólafur Elímundarson. Kirkjur undir jökli, 229. Reykjavík 2000.

[5]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Ingjaldshólskirkja.