Jensenshús, Eskifirði, Tungustígur 3
Byggingarár: 1837
Hönnuður: Páll Ísfeld forsmiður.[1]
Breytingar: Flutt um breidd sína frá götu 1996.[2]
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Jensenshús er einlyft timburhús með krossreist þak, 7,64 m að lengd og 4,20 m á breidd, og með bakdyraskúr með skúrþak við norðurhlið, 3,06 að lengd og 1,64 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og þak listasúð. Kvistur með skúrþaki og sex rúðu glugga með miðpósti er á bakhlið þaks og reykháfur á mæni. Á húsinu eru sex rúðu gluggar með miðpósti; tveir á framhlið, einn á vesturstafni og einn á bakhlið. Þriggja rúðu gluggi er að auki á framhlið og einn með sex rúðu ramma á hvorri gaflhyrnu. Lítill tveggja rúðu gluggi er á norðurhlið bakdyraskúrs og útidyr á austurhlið.
Forstofa er inn af útidyrum og salerni í innri hluta skúrs. Úr forstofu er gengið inn á gang fyrir miðri norðurhlið hússins. Stofa er í hvorum enda hússins og eldhús með hlöðnu opnu eldstæði er við suðurhlið miðja. Stigi á gangi liggur til framlofts á rislofti og þar er herbergi með portveggjum við hvorn gafl. Veggir og súð í bakdyraskúr eru klædd strikuðum panelborðum en húshliðin klædd listaþili. Gangur er klæddur standþili, eldhús og austurstofa eru klædd spjaldaþili en milliþil eru úr standþiljum. Vesturstofa er klædd láréttum breiðum borðum undir glugga en standþiljum að ofan. Yfir jarðhæð er loft á strikuðum bitum. Milliþil í risi eru úr standþili og portveggir en gaflar eru klæddir spjaldaþili. Súðin er úr sköruðum borðum á sperrum.[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 178. Reykjavík 1998.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Jensenshús.