Kaldrananeskirkja, Kaldrananesi við Bjarnafjörð
Byggingarár: 1851
Hönnuður: Jóhann Vilhelm Grundtvig forsmiður.[1]
Breytingar: Á árunum 1888–1892 var kirkjan endurbyggð og loft smíðað í fremri hluta framkirkju en súðar- og skammbitaloft yfir innri hluta og hvelfing yfir kór. Kvistur var smíðaður yfir prédikunarstól og turn upp af framstafni. Hönnuður: Sigurður Sigurðsson snikkari frá Kleifum.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Kaldrananeskirkja er timburhús, 10,36 m að lengd og 4,61 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Tígulgluggi á framhlið turns og lítið hljómop á hvorri turnhlið. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstgluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni. Kvistgluggi er í suðurþekju uppi yfir miðglugga. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og stórskorin brík yfir og flatsúlur hvorum megin dyra.
Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir með rimlum í baki hvorum megin hans en bekkir umhverfis í kór. Loft á bitum er yfir tveimur fremstu stafgólfum framkirkju og stigi við vesturgafl sunnan megin. Innst á loftinu er þil og á því op með ferstrendum rimlum fyrir. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Yfir innri hluta framkirkju er reitaskipt risloft en yfir kór reitskipt hvelfing prýdd stjörnum.[1]ÞÍ. Strandaprófastsdæmi AA/4. Byggingarreikningur Kaldrananesskirkju árið 1851.
[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 151. Bréf 1892. Reikningur yfir aðalaðgjörð Kaldrananeskirkju; Þorgeir Jónsson. Kaldrananeskirkja, úttekt – endurbygging – 1994; Kirkjur Íslands 7, Kaldrananeskirkja, 46-57. Reykjavík 2006.