Fara í efni
Til baka í lista

Kálfafellskirkja, Skaftárhreppur, V-Skaftafellssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1898

Hönnuður: Ókunnur.

Breytingar: Kirkjan var að hluta til klædd bárujárni í upphafi en um 1918 var lokið við að klæða kirkjuna alla bárujárni. Árið 1905 var hvelfing smíðuð í kirkjuna og loft yfir fremri hluta framkirkju. Á árunum 1959-1960 var kirkjan lengd til vesturs, smíðaður á hana þakturn, nýir breyttir gluggar og bekkir settir  í hana og loftið tekið úr kirkjunni.

Hönnuður: Ókunnur.

Kirkjan var skrautmáluð innan 1960 af Jóni og Grétu Björnsson.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kálfafellskirkja er timburhús, 10,10 m að lengd og 4,80 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hljómop með hlera er á hvorri turnhlið. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir 12 rúðu gluggar og einn á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir.

Yfir þvera kirkju er forkirkja, stúkuð af framkirkju með þverþili. Á þilinu eru vængjahurðir að framkirkju og gangur inn af þeim og lausir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Veggir forkirkju eru klæddir sléttum plötum en framkirkja klædd strikuðum panelborðum. Á kórgafli eru flatsúlur og bogi á milli þeirra yfir altari. Reitaskipt skrautmáluð hvelfing er yfir framkirkju og kór.



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 54. Bréf 1903. Skýrsla um kirkjur í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi í fardögum árið 1902.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Kálfafellskirkja.