Fara í efni
Til baka í lista

Keflavíkurkirkja, Kirkjuvegur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1914

Byggingarár: 1914-1915.[1]

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Breytingar: Kór reistur við kirkjuna, viðbyggingar reistar við turn og innréttingum og gluggum breytt 1966-1967.

Hönnuður: Ragnar Emilsson húsateiknari hjá embætti Húsameistara ríkisins.

Forkirkja byggð við turn og kór tengdur við safnaðarheimili 1997.

Hönnuðir: Elín Kjartansdóttir, Haraldur Örn Jónsson og Helga Benediktsdóttir arkitektar.[2] 

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Keflavíkurkirkja er steinsteypuhús, 20,60 m að lengd og 9,20 m á breidd, með kór og kórstúkur við vesturstafn 4,43 m að lengd og 8,70 m á breidd og forkirkju við austurstafn, 2,70 m að lengd og 4,00 m á breidd. Á hvorri hlið eru krossstúkur, 1,57 m að lengd og 5,07 m á breidd. Á kirkjunni er risþak og upp af framstafni er ferstrendur turn með hátt píramítaþak. Veggir eru múrhúðaðir, þök bárujárnsklædd en eir á þaki forkirkju. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar og tveir á hvorri krossstúku. Hvorum megin á kórstúkum og kór eru gluggaraðir með þremur bogadregnum gluggum en við kórbak er tengibygging við safnaðarheimili kirkjunnar. Í gluggum framkirkju og kórs er steint gler. Tveir gluggar eru á framstafni og tveir á framhlið turns, ferkantaður gluggi á hvorum hliðarvegg turns en efst á turnveggjum eru hringlaga gluggar og úrskífur í þremur þeirra. Á forkirkju er sinn glugginn á hvorri hlið og stór hringgluggi með steindu gleri á framstafni yfir spjaldsettum vængjahurðum kirkjudyra.

Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um þrjú þrep og hvorum megin hans eru kórstúkur. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins úr forkirkju. Neðri hluti veggja er klæddur eikarspónlögðum plötum en efri hluti múrhúðaður sem og hvelfingar yfir framkirkju og kór.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 85. Bréf 1917. Byggingarreikningur Keflavíkurkirkju, ásamt fylgiskjölum.

[2]JúlíanaGottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 11. Keflavíkurkirkja, 107-133. Reykjavík 2008.