Fara í efni
Til baka í lista

Ketukirkja, Á Skaga, Skagafirði

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1897

Byggingarár: 1893–1896.

Hönnuður: Árni A. Guðmundsson forsmiður og bóndi í Víkum á Skaga.[1]

Breytingar: Í öndverðu var pappaþak á kirkjunni, veggir klæddir listaþili og hún stóð á steinhlöðnum sökkli.[2] Þakið var klætt bárujárni 1903 og um 1930 var steypt utan á sökkul og kirkjan fest niður á hornum með keðjum. Árin 1984–1985 voru steyptar stoðir undir kirkjuna, keðjur fjarlægðar og þrjár hliðar klæddar slagþili úr mjóum borðum.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Ketukirkja er timburhús, 5,80 m að lengd og 5,15 m á breidd, með klukknaport við framstafn, 0,82 m að lengd og 1,12 m á breidd. Þakið er krossreist og bárujárnsklætt og járnkross upp af stafni. Framstafn er klæddur listaþili en aðrar hliðar slagþili og kirkjan stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir gluggar með átta rúðum. Krossreist þak er á klukknaporti og undir því hanga tvær klukkur. Tvær stoðir eru undir framhlið þess, ferstrendar að neðan og ofan en rúnnaðar á miðhluta. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð og um hana ávalir faldar.

Inn af dyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór norðan megin. Yfir gluggum eru ávalir faldar og hnúður undir. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Strikaður listi er efst á veggjum uppi undir panelklæddri hvelfingu sem nær stafna á milli.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 174. Bréf 1895. Lýsing Ketukirkju; Bréf 1896. Byggingarreikningur Ketukirkju.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/13 og 17. Keta 1906 og 1933; Unnar Ingvarsson. Kirkjur Íslands 5, Ketukirkja, 74-83. Reykjavík 2005.

[3]Sómon Traustason. Viðtal 1998.