Kirkjubæjarkirkja, Norður-Hérað, N-Múlasýsla
Byggingarár: 1850
Byggingarár: 1851–1852.
Hönnuður: Þorgrímur Jónsson snikkari.[1] Einnig er talið að Jón Jónsson frá Vogum í Mývatnssveit geti hafa hannað kirkjuna.[2]
Breytingar: Í öndverðu var þak kirkjunnar timburklætt en var síðar lagt bárujárni. Forkirkja var þiljuð af framkirkju um 1930.[3]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Kirkjubæjarkirkja er timburhús, 13,23 m að lengd og 6,80 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki. Hljómop með hlera er á hvorri turnhlið. Kirkjan er klædd reisifjöl, þak bárujárni, turnþak sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, þrír á framstafni og tveir á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir fjögurra rúðu rammar og að auki er einn póstgluggi með þriggja rúðu römmum efst á stafni kórbaks. Hlerar eru fyrir gluggum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar innri spjaldsettri hurð og bjór yfir.
Forkirkja er þiljuð af framkirkju með þverþili. Í henni er stigi til setulofts yfir framkirkju og fremsta stafgólfi framkirkju. Á þverþilinu eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju og gangur inn af þeim og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Kórþil klætt póstaþili er á mörkum framkirkju og kórs. Kórdyrabogi er milli tvískiptra ferstrendra kórstafa við bríkur innstu bekkja. Í kórþili sunnan megin eru stóldyr, með stöfum og boga yfir, fyrir prédikunarstóli framan kórþils. Veggir eru klæddir póstaþili að neðan en spjaldaþili að ofan. Þverbitar eru yfir framkirkju og kór. Yfir kirkju er risloft opið upp í rjáfur, klætt skarsúð á sperrur.[1]ÞÍ. Bps. C, V. 29. Bréf 1852. Reikningur yfir byggingarkostnað Kirkjubæjarkirkju árin 1851 og 1852.
[2]Hörður Ágústsson taldi að Jón Jónsson trésmiður frá Vogum í Mývatnssveit hefði verið yfirsmiður kirkjunnar. Viðtal árið 2000.
[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Kirkjubæjarkirkja.