Fara í efni
Til baka í lista

Kirkjuhvammskirkja, Miðfjörður, V-Húnavatnssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1882

Byggingarár: 18801882.

Hönnuðir: Björn Jóhannsson smiður og Stefán Jónsson snikkari.

Breytingar: Í upphafi var pappi á kirkjuþaki en það var klætt bárujárni um 1910.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1976.[1]

Sett á fornleifaskrá 30. ágúst 1976 en lagaheimild skortir sbr. II. og IV. kafla þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kirkjuhvammskirkja er timburhús, 8,92 m að lengd og 5,73 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur turn og á honum er íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á háum og breiðum stalli með ferstrent bryggjumyndað þak. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni en turnþök sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum og einn heldur minni er á framstafni. Vatnsbretti er yfir gluggum stutt kröppum. Hljómop með hlerum fyrir eru á þremur hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir. Framundan kirkju eru trétröppur með fjórum þrepum.

Inn af dyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Prédikunarstóll er í innsta bekk sunnan megin. Setuloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl sunnan megin. Portveggir eru hvorum megin á loftinu. Undir því eru tvær veggstoðir og fjórar stoðir við gang. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Yfir kirkjunni stafna á milli er súðarloft og flatt loft undir skammbitum klætt spjaldaþili. Kirkjan er ómáluð að innan.



[1]Þór Magnússon. Kirkjur Íslands 7. Kirkjuhvammskirkja, 172-183.Reykjavík 2006.

[2]Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskrá 1990, 41.