Knappsstaðakirkja, Stíflu

Byggingarár: 1840
Hönnuður: Flóvent Sigfússon forsmiður.
Saga
Kirkja hefur líklega verið á Knappsstöðum frá því fyrir Kristnitöku. Í Ólafs sögu Tryggvasonar í Flateyjarbók er sagt frá því að Þórður knappur Bjarnason landnámsmaður á Knappsstöðum hafi rifið hof sitt á staðnum og reist kirkju eftir að Ólafur vitraðist honum í draumi. Kirkju að Knappsstöðum er getið í nokkrum miðaldahandritum og var hún helguð Pétri postula. Núverandi kirkja var reist í stað torfkirkju sem skemmdist mikið í jarðskjálfta 12. júní 1838.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Knappstaðakirkja er timburhús, 8,47 m að lengd og 3,87 m á breidd, með klukknaport við framstafn. Þakið er krossreist, klætt bárujárni og upp af framstafni er kross á lágum stalli með ferstrendum rimum. Kirkjan er klædd standandi plægðri borðaklæðningu; þykkum og breiðum yfirborðum sem felld eru að mjórri og þynnri undirborðum. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hliðum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Valmaþak er á klukknaporti, tvær stoðir undir framhornum en tvær flatsúlur á kirkjustafni hvorum megin kirkjudyra. Fyrir þeim er spjaldsett hurð.
Inn af dyrum er gangur að kór. Aftursættir þverbekkir eru hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Prédikunarstóll er innst í framkirkju sunnan megin. Veggir kirkju eru klæddir þiljum felldum milli gólfsyllu, miðsyllu ofan neðri brúnar glugga og loftsyllu. Sylla, strikuð á brúnum, er efst á veggjum. Yfir kirkju, stafna á milli, er borðaklædd hvelfing prýdd gylltum keilum.
Heimild
Kirkjur Íslands, 6. bindi, Reykjavík 2005. bls. 229-252