Fara í efni
Til baka í lista

Kotstrandarkirkja, Ölfushreppur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1909

Hönnuðir: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og Samúel Jónsson forsmiður, yfirsmiður kirkjunnar, eftir frumteikningum að Hraungerðiskirkju eftir Eirík Gíslason forsmið.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kotstrandarkirkja er timburhús, 11,35 m að lengd og 7,58 m á breidd. Þakið er krossreist, laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrún og upp af vesturstafni er ferstrendur burstsettur turn með háa spíru. Undir honum er stallur. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir eru á þremur hliðum turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar bogadregnir að ofan. Á framstafni yfir kirkjudyrum eru þrír gluggar, miðglugginn samskonar og aðrir gluggar kirkjunnar en hinir tveir heldur minni. Tveir litlir gluggar eru hvorum megin dyra og aðrir tveir á kórbaki. Í gluggum er miðpóstur og tveir mjórri þverpóstar hvorum megin hans og sex rúður; fjórar ferstrendar og tvær undir fjórðungsboga. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, þær innri spjaldsettar, og bogagluggi yfir.

Forkirkja er þiljuð af framkirkju með bogadregnu þverþili. Í henni sunnan megin er fatahengi en norðan megin er stigi upp á söngloft og setsvalir. Á þverþilinu eru dyr að framkirkju og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir. Inn af dyrum er gangur og hvorum megin hans sveigðir bekkir. Kórgólf er hafið yfir kirkjugólf um tvö þrep. Afþiljað skrúðhús er sunnan megin í kór en geymsla norðan megin. Söngloft er með þverum framgafli og setsvalir inn með hliðum og undir þeim hvorum megin fjórar stoðir með súluhöfuð. Tvær turnstoðir með súluhöfuð eru á sönglofti. Veggir eru ýmist klæddir spjaldaþili, panelborðum eða málningarpappír. Á kórgafli eru flatsúlur hvorum megin altaris og bogi yfir því. Strikasylla er efst á veggjum og er leidd fyrir framgafl, kórstúkur og kórgafl að flatsúlunum. Reitaskipt hvelfing er yfir framkirkju og önnur minni yfir kór.



[1]HérÁrn. Gjörðabók Kotstrandarsóknar 1909.

[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 4. Kotstrandarkirkja, 84-105. Reykjavík 2003.