Krambúðin Neðstakaupstað, Ísafirði
Byggingarár: 1757
Byggingarár: 1757–1758.[1]
Hönnuður: Ókunnur.
Breytingar: Í öndverðu var verslun í suðurenda hússins og vörugeymsla í norðurenda. Árið 1920 var öllu húsinu breytt í íbúðarhús, það klætt innan panelborðum og málningarpappír og allt klætt bárujárni að utan. Árið 1987 voru veggir klæddir listaþili.[2]
Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 16. janúar 1975 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Krambúðin er einlyft timburhús með risþaki, 14 m að lengd og 7,73 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli og veggir eru klæddir listaþili. Þakið er klætt bárujárni og á austurhlið þess eru tveir kvistir með skúrþaki, þrír vestan megin og reykháfur á mæni sunnarlega. Á húsinu eru sex fjögurra rúðu póstagluggar; einn á vesturhlið norðarlega, tveir á norðurgafli og tveir á kvistum vestan megin á þakinu og einn að austanverðu. Norðarlega á austurhlið hússins er 12 rúðu póstagluggi. Á húsinu eru 11 sex rúðu krosspóstagluggar; tveir á austurhlið, suðurgafli og gaflhlaði norðan megin, þrír á vesturhlið og einn á kvisti hvorum megin á þaki. Níu rúðu tvípósta krossgluggi er á gaflhlaði sunnan megin og lítill einnar rúðu gluggi og fánastöng efst. Útidyr eru á framhlið og bakdyr gegnt þeim á vesturhlið.
Forstofa er inn af útidyrum og stigi upp á loft en innar er gangur við bakdyr. Eldhús og þrjár stofur eru sunnan megin í húsinu en að norðanverðu eru stofa, kyndiklefi, baðherbergi og búr. Í risi er gangur upp af stiga, þrjú herbergi í suðurenda en tvö í norðurenda og geymslur undir súð. Veggir eru ýmist klæddir plötum eða panelborðum og í stofum er málningarpappír í loftum milli klæddra bita en önnur loft panelklædd. Veggir og loft í risi eru klædd panelborðum, plötum og málningarpappír.[1]Af norskum rótum.Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, 229. Mál og menning. Reykjavík 2003.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Krambúðin í Neðstakaupstað.
[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Krambúðar í Neðstakaupstað.