Fara í efni
Til baka í lista

Krosskirkja, A-Landeyjar

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1850

Hönnuður: Talinn vera Halldór Guðmundsson forsmiður í Strandarhjáleigu.

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð en var síðar klædd bárujárni.

Árið 1934 var kirkjan klædd að innan með krossviði, smíðuð í hana hærri hvelfing en verið hafði, setuloft stytt, þil gert um altaristöflu og forkirkja þiljuð af framkirkju.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Krosskirkja er timburhús, 12,67 m að lengd og 6,05 m á breidd. Á krossreistu þaki upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Skásettur gluggi með fjögurra rúðu ramma er á framstafni turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim er miðpóstur og tveir átta rúðu rammar. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Forkirkja er stúkuð af framkirkju. Vængjahurðir eru að framkirkju og inn af þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Í framkirkju sunnan megin forkirkju er stigi til setulofts yfir fremsta hluta kirkjunnar. Á miðjan kórgafl hvorum megin altaris er klætt þil, bogadregið að ofan, sem altarisbrík er felld inn í. Afþiljað skrúðhús er sunnan altaris. Veggir eru klæddir krossviðarplötum og yfir kirkjunni er reitaskipt stjörnusett hvelfing stafna á milli.



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 60. Bréf 1852. Skýrsla yfir smíðarreikning Krosskirkju árið 1850. Við smíði kirkjunnar voru: Brynjólfur smiður í 117 daga á 64 = 77 rd.; Halldór smiður í 150 daga á 64 = 100 rd.; Guðmundur í 147 daga á 64 = 98 rd.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Krosskirkja.