Fara í efni
Til baka í lista

Kvíabekkjarkirkja, Ólafsfjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1889

Byggingarár: 1892.

Hönnuður: Bjarni Einarsson forsmiður.

Athugasemd: Kirkjan er byggð upp úr efni kirkju sem Bjarni smíðaði 1889 en fauk 21. janúar 1892.[1] Kvíabekkjarkirkja var aflögð 1916 en lagfærð og endurvígð 1958.

Breytingar: Lengd 1969 til vesturs, forkirkjuturn aflagður en opinn þakturn smíðaður upp af framstafni og árið 1975 var gluggum breytt og kirkjan klædd að utan með plastpanel.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kvíabekkjarkirkja er timburhús, 9,38 m að lengd og 5,06 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er klukknaport með krossreistu þaki. Kirkjan er klædd plastpanel, þök bárujárni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum og er stöguð niður á hliðum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar með sex rúðum og annar heldur minni á framstafni. Klukknaport er smíðað úr járni, veggir eru opnir að neðan upp að mæni kirkju en timburklæddir að ofan. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð.

Í forkirkju sunnan megin er stigi upp á setuloft yfir fremri hluta framkirkju og spjaldahurð að framkirkju. Inn af henni er gangur, þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Fjórar súlur eru undir setulofti. Veggir og loft forkirkju eru klædd plötum. Í framkirkju og kór eru veggir klæddir standþiljum og strikasylla er efst á veggjum og leidd fyrir kórgafl. Yfir framkirkju og kór er panelklædd hvelfing.



[1]ÞÍ. Kirknasafn. Kvíabekkur AA/2. Reikningur Kvíabekkjarkirkju fardagaár 1889-1890; Biskupsskjalasafn C, V. 185. Bréf 1892. Bréf prófasts til biskups dagsett 1. febrúar 1892. 

[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 9, Kvíabekkjarkirkja, 124-137. Reykjavík 2007.