Fara í efni
Til baka í lista

Lækjargata 2 A, Frökenarhús

Friðlýst hús

Byggingarár: 1839

Byggingarár: 1824.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Frökenarhús er einlyft múrhúðað timburhús með risþaki og kjallara undir norðurhluta, 7,54 m að lengd og 5,75 m á breidd. Þakið er klætt tígulsteinsmótuðum málmplötum en skúrþak er bárujárnsklætt. Tveir þakkvistir með skúrþaki eru á framhlið þaks og einn á bakhlið. Við bakhlið er skúr með skúrþaki byggður úr timbri og steinsteypu og tilheyrir hluti hans húsinu. Hús eru byggð upp að báðum göflum Frökenarhúss. Veggir eru múrhúðaðir og skúr klæddur bárujárni og hraunmúraður. Á framhlið hússins eru tveir gluggar; annar með fjórum rúðum tveimur lóðréttum póstum og þverpósti í einu fagi og hinn með þremur rúðum og miðpósti og þverpósti öðrum megin. Gluggar sömu gerðar eru í kvistum framhliðar og einn á bakhlið hússins. Þar er að auki tveggja rúðu gluggi með miðpósti. Í bakkvisti er einnar rúðu gluggi. Útidyr eru á miðri framhlið og bakdyr á skúr sunnan megin.

Inn af útidyrum er forstofa, stofa í suðurenda, borðstofa í norðausturhluta og eldhús og stigi í norðvesturhluta. Í skúrviðbyggingu eru forstofa og baðherbergi. Í risi er framloft, tvær súðargeymslur og herbergi í suðurhluta. Veggir hússins eru plötuklæddir nema loft í norðurenda sem er klætt standþili. Í stofum er loft á bitum en í forstofu og eldhúsi eru loft plötuklædd milli bita. Á norðurhluta loftsins er skarsúð á sperrum en í suðurenda og skúrviðbyggingu er plötuklædd súð neðan á sperrum.  



[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 138-139. Torfusamtökin 1986; Minjasafnið á Akureyri. Hanna Rósa Sveinsdóttir. Viðtal 1999.