Fara í efni
Til baka í lista

Landakirkja, Kirkjuvegur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1778

Byggingarár: 1774-1778.

Hönnuður: Georg David Anthon hirðarkitekt.

Breytingar: Þakturn smíðaður, kórgrindur fjarlægðar, prédikunarstóll færður yfir altari, setuloft stækkað,  setsvalir og hvelfing smíðuð í kirkjuna 1854-1857.

Forkirkja úr timbri smíðuð, gluggar síkkaðir, kórdyr á norðurhlið aflagðar, setuloft og setsvalir stækkuð 1903.

Hönnuður: Magnús Ísleifsson trésmíðameistari.

Árið 1946 var terrassógólf steypt yfir tígulsteinagólf kirkjunnar.

Nýr forkirkjuturn úr steinsteypu byggður og bekkjum breytt 1955-1957.

Hönnuður: Ólafur Á. Kristjánsson bæjarstjóri.

Árið 1978 voru þök klædd eirplötum.

Árin 1985-1986 voru kirkjuveggir grófkústaðir með múrviðgerðarefni og nýir gluggar settir í þá.

Árin 1988-1990 var tengibygging gerð neðanjarðar við safnaðarheimili norðan kirkjunnar.

Hönnuður: Páll Zóphóníasson byggingatæknifræðingur.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Landakirkja er steinhlaðið hús, 17,34 m að lengd og 10,12 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 5,68 m að lengd og 5,73 m á breidd, og viðbyggingar hvorum megin stöpuls, 5,17 m að lengd og 1,71 m á breidd. Þak kirkju er krossreist, klætt eirplötum eins og turnþök. Stöpullinn er hár, ferstrendur að grunnformi, og á honum lágreist þak upp að lágum og mjóum turni. Á honum er rismikið píramítaþak sem gengur út undan sér að neðan. Kirkjan er múrsléttuð og grófkústuð og á hvorri hlið eru þrír gluggar með sex rúðum og geiraboga að ofan. Gluggar sitja í inndregnum flötum. Efst á kórbaki er lítill bogadreginn gluggi en tíu gluggar með geiraboga eru á stöpli og turni. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Í forkirkju norðan megin er stigi niður í tengigang að hálfniðurgröfnu safnaðarheimili norðan kirkju. Sunnan megin er stigi til sönglofts yfir fremsta hluta framkirkju og setsvala inn með hliðum. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en langbekkir í kór en lausir stólar á sönglofti og setsvölum. Kórbogi er yfir kórdyrum. Prédikunarstóll er innan og ofan altaris og hljóðhiminn yfir. Veggir eru múrhúðaðir og gluggar sitja í djúpum glugghúsum. Yfir kirkjunni stafna á milli er reitaskipt stjörnusett hvelfing.



[1]Finsen, Helge, og Hiort, Esbjørn. Steinhúsin gömlu á Íslandi. Kristján Eldjárn þýddi. Reykjavík 1978; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 11. Landakirkja, 234-267. Reykjavík 2008.