Fara í efni
Til baka í lista

Langholtskirkja, Meðallandi, V-Skaftafellssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1863

Hönnuður: Jóhannes Jónsson forsmiður.

Breytingar: Upphaflega voru veggir klæddir listaþili og þak listasúð. Turninn var að hluta klæddur sinkplötum 1866 og árið 1891 var allur turninn, kirkjuþak og kórbak klætt bárujárni og aðrar hliðar kirkjunnar 1904. Þá munu bjórar sem voru yfir gluggum og kirkjudyrum hafa verið fjarlægðir.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Langholtskirkja er timburhús, 12,67 m að lengd og 6,39 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á lágum stalli. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum en krosspóstagluggi með þverrimum og sex rúðum er á framstafni yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil og hár kórbogi er á mörkum framkirkju og kórs. Kórþilið er í baki innstu bekkja; klætt spjaldaþili að neðan en lágum rimum að ofan. Undir kórboganum eru þrír oddbogar; einn hvorum megin kórdyra og boginn að sunnanverðu er yfir dyrum að prédikunarstóll framan kórþils. Langbekkir eru í kór og veggbekkir umhverfis að altari. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins með framgafli norðan megin. Skástífa er ofarlega á vegg hvorum megin uppi undir frambrún sönglofts. Veggir eru klæddir láréttri borðaklæðningu undir gluggum en spjaldaþili að ofan. Á kórgafl eru þrír oddbogar og bogi yfir svipaðrar gerðar og í kórboga. Borðaklædd hvelfing er yfir framkirkju og kór en yfir setulofti er skarsúð á sperrum og borðaklætt loft á skammbitum.



[1]ÞÍ. Bps. C, V. 53. Bréf 1865. Skýrsla um ástand og fjárhag kirknanna í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi fyrir árið 1865.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Langholtskirkja.