Fara í efni
Til baka í lista

Laufásbærinn, Grýtubakkahreppur, S-Þingeyjarsýslu

Friðlýst hús

Byggingarár: 1840

Byggingarár: 1840–1877.

Athugasemd: Flest bæjarhúsa eru reist 1840–1877 en bærinn er eldri að stofni til.

Hönnuður: Jóhann Bessason forsmiður frá Skarði en talið er að Tryggvi Gunnarsson forsmiður og síðar bankastjóri hafi sagt fyrir um útlit frambæjarhúsa.1

Friðun:

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1948.

Tekinn á fornleifaskrá 5. júní 1948 samkvæmt 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 en ekki þinglýst og friðlýsingin er því ógild sbr. 6. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907.[2]

Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Laufás er torfbær sem telur 12 hús, um 29 m að lengd og 28 m á breidd. Bærinn snýr fimm stöfnum til vesturs fram á bæjarhlað. Nyrst þeirra er stórastofa, sem skipt er með þverþili í fínustofu við framþil og gestastofu í austurhluta, næst eru bæjardyr með afþiljaðri skonsu, gangi og stiga sunnan megin, skáli er þarnæst, dúnhús og syðst er skemma. Innangengt er á milli bæjardyra og suðurstofu, á milli bæjardyra og skála, á milli skála og hlóðaeldhúss og á milli skála og dúnhúss. Inn af bæjardyrum eru bæjargöng til austurs og hvorum megin við þau eru tvö hús. Tvö fremri húsin eru brúðarhús að sunnanverðu og gengt því er hlóðaeldhús að norðanverðu. Innri húsin eru búr að sunnanverðu, með mjólkurbúri inn af, og gegnt búri er litlastofa að norðanverðu. Fyrir enda bæjarganga er tvílyft baðstofa. Neðri hæð skiptist í nýjaeldhús með stiga inn af bæjargöngum, piltahús í norðurenda og nýjabúr í suðurenda. Upp af stiga er baðstofa í suðurenda, miðhús norður úr henni og kontor nyrst með bakdyr á vesturhlið. Suður af baðstofu og austur af skemmu stendur smiðja og í kró á milli hennar og bæjarhúsa er kálgarður.

Veggir eru að neðanverðu hlaðnir úr grjóti með torfstreng milli steinaraða en að ofanverðu úr torfi eingöngu; klömbruhnaus, kvíahnaus, streng og sniddu. Þök eru öll tyrfð. Framstafnar fjórir eru klæddir listuðu standþili úr þykkum og breiðum borðum sem greipt eru saman með mjórri og þynnri listum. Á hverjum þeirra eru þrír sex rúðu gluggar með miðpóst — tveir niðri og einn á gaflhlaði. Um þá eru hvilftaðir faldar og vatnsbretti ofan við neðri glugga. Veðurhani er efst á stafni bæjardyra og á skála er konuhöfuð skorið í tré með blómaskrauti og æðarblika. Einn gluggi er á norðurhlið gestastofu, annar á gaflhlaði að austanverðu og tveggja rúðu gluggi á suðurgaflhlaði brúðarhúss. Á dúnhúsi neðst eru að auki tveir litlir tveggja rúðu gluggar sem veita birtu niður í kjallara undir fremsta hluta þess. Skemmustafn er klæddur listaþili sem og gaflhlöð skemmu, dúnhúss, skála og gestastofu að austanverðu. Gaflhlað brúðarhús að sunnanverðu er klætt slagþili. Á skemmu eru þrír fjögurra rúðu gluggar og einn að austanverðu, mjóir faldar til hliða og vatnsbretti að neðan og ofan. Kvistgluggi er í þekju uppi yfir gangi milli bæjardyra og stórustofu, einn á hlóðaeldhúsi, einn á bæjargöngum, þrír á búri, tveir á litlustofu og níu á baðstofu og að auki eru á austurhlið baðstofu niðri fjórir sex rúðu gluggar. Útidyr eru á miðjum stafni bæjardyra, dúnhúss og skemmu og til hliðar við þær grönn hálfsúla og að ofan breið fjöl hringskorin á neðri hornum og brík yfir og vesturhlið baðstofu. Smiðjustafn er klæddur slagþili og á honum eru tveir fjögurra rúðu gluggar með mjóum földum umhverfis og vatnsbrettum að ofan og neðan. Dyr eru á stafninum á milli glugga.

Veggir bæjardyra eru klæddir standþiljum og yfir er borðalagt loft á bitum. Afþiljaður stigi til bæjardyralofts er í norðausturhorni. Gaflar eru óklæddir og súðin er klædd skarsúð á sperrur. Gangur að stórustofu er klæddur standþili og spjaldaþili og yfir er skarsúð klædd neðan á sperrur. Fínastofa er klædd brjóstþili með reitum að neðan og standþiljum að ofan en veggir í gestastofu er klæddir brjóstþili með standþiljum að neðan og ofan. Sléttfellt loft er neðan á bitum í fínu stofu en gólfborð á klæddum bitum í gestastofu og í henni er stigi til lofs yfir stofunum. Framhluti loftsins er þrepi hærri en innri hluti loftsins yfir gestastofu og eru lágir portveggir í þeim hluta, klæddir láréttum borðum. Framgafl er óklæddur að innan en austurgafl er klæddur standþiljum. Skáli er óþiljaður að innan og framgafl og gaflhlað bakatil eru óþiljuð að innan. Grindin er portbyggð með stoðum á stoðarsteinum, skástífum, þverbitum, veggsylla á stoðum og sperrur á þeim upp af stoðum. Á sperrum eru langbönd og viðarrenglur og reiðingur og torf yfir. Hluti súðar er klæddur skarsúð. Dúnhús og skemma eru uppbyggð á sama hátt og frágangur allur svipaður. Grind smiðju er og með svipuðum hætti nema þar eru skammbitar í stað þverbita og í þekju eru langbönd á sperrum og reist súð undir torfi. Fremri hluti bæjarganga eru byggður af stoðum, skástoðum, veggsyllu, þverbitum og sperrum en innri hlutinn er byggður af stafverki með veggsyllu greypta ofan í stafi og sömu þakuppbyggingu. Stoðir og stafir hvíla á stoðarsteinum. Brúðarhús er klætt að innan með listuðum standþiljum, þverbitar eru milli veggsyllna og upp af kálfsperrur með langböndum og reisifjöl. Hlóðaeldhús er óþiljað innan og í því eru steinhlaðnar hlóðir að vestanverðu. Í hlóðaeldhúsi eru stoðir með veggsyllu og þverbitum og kálfsperrur með hanabjálka, langbönd og raftar. Fremri hluti búrs er óþiljaður og byggður af stoðum, veggsyllu, þverbitum og sperrum með langböndum og gisinni reisifjöl. Mjólkurbúr í innri hluta búrs er þiljað að innan með standþiljum og yfir er skarsúð á sperrum. Litla stofa er þiljuð að innan með standþiljum og yfir er skarsúð á sperrum með hanabjálkum.

Nýjaeldhús er klætt standþili og standþiljum og yfir því er loft á bitum. Nýjabúr er klætt standþiljum og yfir er oft á bitum. Pilthús í norðurenda er klætt standþiljum og yfir því eru sléttfelld borð neðan á bitum og er loftið styrkt með tveimur þverbitum. Baðstofa, miðhús og kontor eru klædd standþiljum og yfir þeim er skarsúð á sperrum með hanabjálkum. Bærinn er ómálaður að innan nema fína stofa, gestastofa, pilthús, miðloft og kontor. 



1 Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 67. Reykjavík 1998; Laufás við Eyjafjörð. Staðurinn. Reykjavík 2004.

[2]Ágúst Ó. Georgsson. Forleifaskrá 1990, 50.