Fara í efni
Til baka í lista

Leirárkirkja, Leirár- og Melahreppur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1914

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Breytingar: Forkirkja var byggð 1951 og trégrind smíðuð innan á veggi kirkjunnar og þeir klæddir trétexi og asbestplötum. Forkirkjan var stækkuð og endurbyggð 1973-1974 og kirkjan klædd trapisujárni að utan en um 1990 voru veggir klæddir spónaplötum að innan.[3]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Leirárkirkja er steinsteypuhús, 10,5 m að lengd og 6,55 m á breidd, með forkirkju, 2,80 m að lengd og 4,33 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er klædd trapisustáli, þak bárujárni en turnþak sléttu járni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar. Í þeim er krosspóstur og rimar um 20 smárúður. Hvorum megin kirkjudyra er mjór ferstrendur gluggi en fyrir dyrunum spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Með þverum framgafli er setuloft á tveimur stoðum og stigi norðan megin gangs við gaflinn. Lausir bekkir eru á loftinu og tvær stoðir sem ganga upp í turninn. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en framkirkja er klædd spónaplötum og kórgafl strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni er reitaskipt hvelfing stafna á milli.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 93. Bréf 1915. Skýrsla um kirkjur í Borgarfjarðarprófastsdæmi í árslok 1914.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990, 324. Reykjavík 2000.

[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/6. Leirárkirkja 1951; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Leirárkirkja, 214-229. Reykjavík 2009.