Mávanes 4, Garðabæ
Byggingarár: 1964
Höfundur: Manfreð Vilhjálmsson arkitekt
Friðun
Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 19. maí 2011 með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins og burðarvirkis þess.
Byggingarefni
Steinsteypa.
Mávanes 4 er eitt kunnasta íbúðarhús arkitektsins Manfreðs Vilhjálmssonar byggt árið 1964. Um húsið hefur víða verið fjallað, m.a. í innlendum og erlendum fagritum. Það er að margra mati í hópi merkustu verka á sviði íslenskrar nútímabyggingarlistar. Styrkur hússins felst ekki síst í tengslum þess við umhverfið, þar sem garður og bygging renna saman í eina heild. Í þessu húsi komu fram í fyrsta sinn ýmis þekkt höfundareinkenni Manfreðs, ekki síst í yfirborðsmótun steinsteypu og samspili steyptra útveggja við létta burðargrind úr dökku timbri, sem þakið hvílir á án þess að snerta veggina. Hugmyndin byggir öðrum þræði á túlkun höfundarins á fornri íslenskri torfhúsagerð, þar sem þekja hvílir á trégrind innan í grófri tóft sem samgróin er landinu.