Fara í efni
Til baka í lista

Miðdalskirkja, Laugardalshreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1869

Hönnuður: Guðmundur Þórðarson snikkari.

Saga

Elsta heimild um kirkju í Laugardal er í Biskupasögum þar sem sagt er frá prestinum Gunnólfi Finnlaugssyni sem söng messu fyrir Ísleif biskup Gissurarson. Kirkja hefur því verið á staðnum fyrir 1080. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 segir að Miðdalskirkja sé helguð Maríu mey. Núverandi kirkja var byggð á grunni eldri timburkirkju. Sú kirkja var upphaflega torfkirkja sen hafði verið breytt í timburkirkju með því að torfinu var rutt af henni og hún klædd timbri.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Miðdalskirkja er timburhús 7,68 m að lengd og 5,10 m á breidd. Þak er krossreist og upp af vesturstafni er turn með risþaki. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili en þök bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með miðpósti og þrískiptum ramma hvorum megin. Að neðan eru tvær rúður en efst eru skásettar rúður um fjórar þríhyrndar rúður. Yfir þeim er bjór sem rís upp í odd efst fyrir miðju, en er hvilftur hvorum megin að hringlaga hnúðum til enda. Á framstafni yfir kirkjudyrum er einn gluggi, heldur minni en hinir. Fyrir kirkjudyrum er hlífðarhurð á okum en innri hurðin spjaldsett. Um þær eru skoraðir faldar og stórstrikuð brík yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í baki innstu bekkja og í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir með hnetti efst. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Yfir fremri hluta framkirkju er afþiljað loft á bitum og tveimur stoðum og tveimur hálfstoðum við veggi. Stigi til kirkjulofts er við framgafl í norðvesturhorni. Veggir eru klæddir spjaldaþiljum. Reitaskipt hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og kór.

Heimild

Kirkjur Íslands, 3. bindi, bls. 81 - 103