Fara í efni
Til baka í lista

Miðdalskirkja, Laugardalshreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1869

Hönnuður: Guðmundur Þórðarson forsmiður.[1]

Breytingar: Upprunalega var þak kirkjunnar klætt listasúð en það var pappaklætt 1887 og klætt bárujárni skömmu fyrir 1909. Kirkjan var ómáluð að innan fram til 1893 en þá voru loft, hvelfing, bitar og gluggar máluð hvít og öll kirkjan var máluð að innan 1902. Þrjú hljómop voru í upphafi á turninum en nú er aðeins hljómop á framstafni.[2] Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Miðdalskirkja er timburhús 7,68 m að lengd og 5,10 m á breidd. Þak er krossreist og upp af vesturstafni er turn með risþaki. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili en þök bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með miðpósti og þrískiptum ramma hvorum megin. Að neðan eru tvær rúður en efst eru skásettar rúður um fjórar þríhyrndar rúður. Yfir þeim er bjór sem rís upp í odd efst fyrir miðju, en er hvilftur hvorum megin að hringlaga hnúðum til enda. Á framstafni yfir kirkjudyrum er einn gluggi, heldur minni en hinir. Fyrir kirkjudyrum er hlífðarhurð á okum en innri hurðin spjaldsett. Um þær eru skoraðir faldar og stórstrikuð brík yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í baki innstu bekkja og í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir með hnetti efst. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Yfir fremri hluta framkirkju er afþiljað loft á bitum og tveimur stoðum og tveimur hálfstoðum við veggi. Stigi til kirkjulofts er við framgafl í norðvesturhorni. Veggir eru klæddir spjaldaþiljum. Reitaskipt hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og kór.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 70 B. Bréf 1870. Byggingarreikningur Miðdalskirkju 1869 ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ.  Árnesprófastsdæmi AA/7, 9, 10 og 11. Miðdalur 1870, 1892, 1903 og 1909; Biskupsskjalasafn 1994-AA/1. Miðdalur 1893; Hörður Ágústsson. Miðdalskirkja. Erindi við endurvígslu hennar 16. október 1988. Í vörslu sóknarnefndar; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 3. Miðdalskirkja, 83-93. Reykjavík 2002.