Fara í efni
Til baka í lista

Minjasafnskirkjan, Aðalstræti 56

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1846

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.

Breytingar: Kirkjan var smíðuð á Svalbarði við Eyjafjörð en flutt þaðan og endurbyggð á safnsvæðinu 1971–1972.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Minjasafnskirkjan er timburhús, 10,18 m að lengd og 5,11 m á breidd. Þakið er krossreist. Kirkjan er klædd slagþili og rennisúð og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn heldur minni á framstafni. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Ofarlega á kórbaki er gluggi með tveimur sexrúðu römmum. Klukknastóll með tveimur klukkum er ofarlega á framstafni og trékross upp af. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með lágu kórþili klæddu póstaþili. Í kórdyrum eru kórstafir, ferstrendir að neðan en sívalir að ofan og á þeim súluhöfuð uppi undir þverbita. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og við hann stólstafir og bogi yfir. Hvorum megin gangs eru þverbekkir og er innsti bekkur norðan megin tvísættur en í kór eru veggbekkir umhverfis að altari. Setuloft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og stigi sunnan megin við framgaflinn. Veggir kirkju eru klæddir póstaþili. Skarsúðarloft á sperrum er yfir kirkju stafna á milli.



[1]Haraldur Þór Egilsson. Kirkjur Íslands 10, Minjasafnskirkja , 173-184, Reykjavík 2007.