Fara í efni
Til baka í lista

Mosfellskirkja, Grímsneshreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1848

Hönnuður: Bjarni Jónsson snikkari.

Saga

Mosfellskirkja er nefnd í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200 en talið er að kirkja hafi verið á allt frá upphafi kristni á Íslandi. Elsti varðveitti máldagi kirkjunnar er Vilchinsmáldagi frá 1397 og er hún þá helguð Maríu mey. Núverandi kirkja var reist á grunni eldri torfkirkju. 

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 20. desember 1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969. Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Mosfellskirkja er timburhús, 10,13 m að lengd og 5,07 m á breidd. Þak er krossreist og upp af vesturstafni er turn með risþak. Bogadregin hljómop með hlera eru á þremur turnhliðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur sex rúðu römmum en einn heldur minni á framstafni. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og stendur hún á steinsteyptum sökkli. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með okum og spjaldsett innri hurð og strikuð brík yfir.

Forkirkja er yfir þvera kirkju stúkuð af framkirkju með þverþili. Skrúðaskápur er í henni sunnan megin en stigi til loftsins norðan megin. Á þverþilinu eru vængjahurðir að framkirkju, gangur inn af þeim en bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í baki innstu bekkja sem klætt er niður í gólf og veggbekkir umhverfis í kór að altari. Veggir eru klæddir spjaldaþiljum en í þverþili er krossviður. Yfir fremri hluta kirkjunnar er afþiljað loft á bitum en reitaskipt hvelfing yfir innri hluta og strikasylla undir.

Heimild

Kirkjur Íslands, 3. bindi, bls. 107 - 138