Munkaþverárkirkja, Eyjafjörður
Byggingarár: 1844
Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.
Breytingar: Um 1920 voru þrír þverbitar teknir úr kór og prédikunarstóll fluttur inn í kórinn úr framkirkju undan kvistglugga. Síðar var forkirkja stúkuð af framkirkju með þverþili og söngkór komið fyrir fremst í framkirkju sunnan megin. Kirkjan var um tíma klædd bárujárni en var aftur klædd slagþili 1984–86. Þá skrautmálaði Haukur Stefánsson kirkjuna að innan.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Munkaþverárkirkja er timburhús, 13,33 m að lengd og 6,94 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur ferstrendur turn með íbjúgu pítamítaþaki. Kirkjan er klædd slagþili, þak bárujárni en turnþak skarsúð og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, þrír á framstafni og fjórir misstórir á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar nema í tveimur gluggum ofarlega á kórbaki; í þeim er fjögurra rúðu rammi og gluggi sömu gerðar er á framhlið turns. Sunnan megin á þaki kirkjunnar er kvistur með póstaglugga og tveimur tveggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.
Forkirkja er stúkuð af framkirkju með þverþili. Sunnan megin í henni er herbergi og stigi upp á setuloft yfir fremsta hluta framkirkju. Á þverþilinu eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af dyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Prédikunarstóll er innst í kór sunnan megin og himinn yfir honum. Fremst í framkirkju norðan megin er orgel og veggbekkir fyrir kirkjukórinn. Veggir eru klæddir póstaþili en þilveggur milli forkirkju og framkirkju er klæddur plötum og listum. Þverbitar eru yfir framkirkju og skammbitar ofarlega á milli sperra. Loft yfir kirkjunni er opið upp undir mæni og klætt skarsúð ofan á sperrur.