Fara í efni
Til baka í lista

Mýrakirkja, Dýrafjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1896

Byggingarár: 1897.

Hönnuður: Ókunnur, en yfirsmiður var Jónas Jónasson smiður.

Athugasemd: Efni til kirkjusmíðarinnar var flutt inn tilsniðið frá Noregi.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Mýrarkirkja er timburhús, 10,18 m að lengd og 7,72 m á breidd, með kór, 4,40 m að lengd og 5,02 á breidd, og turn við vesturstafn, 2,53 m að lengd og 2,68 m á breidd. Risþak er á kirkju og kór en á turni píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir gluggar og einn heldur minni á hvorri hlið kórs. Í þeim er krosspóstur og þverrimar og sex rúður og fyrir þeim vængjahlerar. Efst á framstafni kirkju hvorum megin turns er lítill tveggja rúðu gluggi. Gluggi er á hvorri turnhlið og ferstrent hljómop með hlera fyrir efst á þremur hliðum hans. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldasettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Bekkir eru hvorum megin gangs. Setuloft á fjórum stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl sunnan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir framkirkju og kór er súðarloft en skammbitaloft yfir miðhluta bæði klædd strikuðum panelborðum. Strikaður listi er á miðri súð og yfir honum bitaendar sneiddir á endum.



[1]Af norskum rótum.Hjörleifur Stefánsson. Um norsk áhrif á íslenska byggingarsögu, 34; Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, 236. Mál og menning. Reykjavík 2003.