Narfeyrarkirkja, Skógarströnd
Byggingarár: 1889
Byggingarár: 1899.[1]
Hönnuður: Sveinn Jónsson forsmiður frá Djúpadal[2] og Jón Jósefsson í Straumi.
Athugasemd: Árið 1888 var byggð timburkirkja á Narfeyri en hún hrundi gjörsamlega 23. desember 1888. Ný kirkja var byggð 1889[3] en hún færðist til á grunni í óveðri 1897 og fauk ári síðar. Kirkjan var rifin og endurbyggð 1899. Yfirsmiður við endurbyggingu kirkjunnar 1899 var Jón Jósefsson í Straumi.[4]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Narfeyrarkirkja er timburhús, 8,88 m að lengd og 5,76 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur turn með píramítaþaki og undir honum bjúgstallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum, einn heldur minni á framstafni og lítill gluggi með bjór yfir á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir og undir honum flatsúlur hvorum megin dyra.
Inn af kirkjudyrum er gangur að upphækkuðum kórpalli, bogadregnum á framhlið og girtum handriði með renndum pílárum. Hvorum megin gangs eru sveigir bekkir. Yfir fremri hluta framkirkju er söngloft á fjórum súlum og stigi við framgafl norðan megin. Tvær turnstoðir eru á loftinu. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og yfir kirkjunni er panelklædd hvelfing stafna á milli.[1]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6. Narfeyri 1900.
[2]Sigurður Hreiðarsson. Viðtal 2005.
[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C,V. 112. Bréf 1889. Skýrsla um kirkjur í Snæfellsnessprófastsdæmi í fardögum árið 1888; Bréf 1890. Skýrsla um kirkjur í Snæfellsnessprófastsdæmi í fardögum árið 1889.
[4]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6. Narfeyri 1898 og 1900; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Narfeyrarkirkja, handrit 15. september 2006.