Fara í efni
Til baka í lista

Neskirkja, Aðaldælahreppur, Suður-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1903

Hönnuður: Eiríkur Þorbergsson forsmiður.[1]

Breytingar: Lengd til vesturs um eitt gluggafag og kór smíðaður 1976–1977.

Hönnuður: Bjarni Ólafsson trésmíðameistari.

Jón og Gréta Björnsson skrautmáluðu kirkjuna innan 1977.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Neskirkja er timburhús, 11,36 m að lengd og 7,04 m á breidd, með kór undir minna formi, 1,56 m að lengd og 3,47 m á breidd, og með opnu klukknaporti við vesturstafn, 0,81 m að lengd og 1,52 m á breidd. Bárujárnsklætt risþak er á kirkju og kór en krossreist þak á klukknaporti. Kirkjan er klædd láréttri panelklæðningu og hornborðum með súluhöfðum en hæðarskilsband er umhverfis hana skreytt tannstöfum. Hún stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar með tólf rúðum og tveir á hvorum stafni. Hvorum megin á kór er mjór gluggi með þremur rúðum. Um gluggana eru ferstrend umgjörð með földum í klassískum stíl. Súlur eru undir framhornum klukknaports. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Forkirkja er yfir þvera kirkju. Í henni sunnan megin er stigi upp á söngloft yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvalir eru fram með hliðum. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin gangs eru skásettir þverbekkir en langbekkir á setsvölum. Þilveggir eru innarlega í framkirkju hvorum megin kórdyra, norðan megin er geymsla en skrúðhús sunnan megin og prédikunarstóll framan þilsins. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er strikasylla uppi undir lágbogahvelfingum yfir framkirkju og kór.  


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 175. Reykjavík 1998.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Neskirkja í Aðaldal.