Fara í efni
Til baka í lista

Nonnahús, Aðalstræti 54 A

Friðlýst hús

Byggingarár: 1849

Breytingar: Torfstofa við bakhlið hússins rifin 1859 og viðbygging við bakhlið stækkuð sem nam stofunni.

Hönnuðir: Ókunnir.[1]

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Nonnahús er einlyft timburhús með risþaki, 10,34 m að lengd og 4,77 m á breidd, með mæniskvist sunnan megin á framhlið. Viðbygging með skúrþaki er við bakhlið hússins, 5,78 m að lengd og 4,32 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli og kjallari er undir eldhúsi. Veggir eru klæddir slagþili og þak er lagt pappa og listum en skúrþak bárujárnsklætt. Reykháfur er á mæni upp af útidyrum og lítill kvistur með skúrþaki og tveggja rúðu glugga er vestan megin á þakinu. Á húsinu eru 13 sex rúðu gluggar með miðpósti; fimm á framhlið, þar af einn á kvisti sem skreyttur er með bjór og kröppum, þrír á suðurstafni og þrír á suðurgafli skúrs, einn á bakhlið og norðurstafni, en á honum eru einnig tveir þriggja rúðu gluggar. Útidyr með spjaldahurð eru á miðri framhlið hússins og að þeim trétröppur. Yfir dyrum er þvergluggi með fimm rúðum í randskornum umbúnaði og stórstrikuð brík yfir studd kröppum.

Inn af dyrum er forstofa, stór stofa er í suðurenda hússins og önnur minni í norðurenda. Eldhús og stigi eru fyrir miðju húsi bakatil og búr inn af því í norðvesturhorni. Úr suðurstofu er gengið í sal í viðbyggingu. Upp af stiga er framloft og súðargeymsla. Herbergi er við hvorn gafl og eitt undir kvisti. Forstofa er klædd spjaldaþili en veggir í stofum í hvorum enda hússins eru klæddir standþili að neðan en veggfóðruðum krossviðarplötum að ofan og að auki er brjóstlisti við neðri brún glugga í norðurstofu. Eldhús er klætt standþiljum og listuðum standþiljum og búr standþiljum. Á jarðhæð er loft á bitum og eru klæddir bitar í forstofu og stofunum báðum. Salur í viðbyggingu er plötuklæddur og súð panelklædd. Veggir í risi eru klæddir standþili og yfir þeim er skarsúð á sperrum og í norðurherbergi er vestursúðin að auki klædd sléttfelldum borðum neðan á sperrur og hanabjálka. Kvistherbergi er klætt brjóstþili með sneiddum spjöldum að neðan og standþiljum að ofan. Í því er reitaloft neðan á bitum úr breiðum þiljum og tannstafur efst á veggjum undir loftinu og skornir krappar á veggjum undir reitaumgjörðum. Jarðhæð hússins er máluð að innan, nema eldhús og búr, og rishæðin er ómáluð nema kvistherbergi.



[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 98-99. Torfusamtökin 1986.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Nonnahúss.