Fara í efni
Til baka í lista

Norska húsið, Stykkishólmi, Hafnargata 5

Friðlýst hús

Byggingarár: 1832

Athugasemd: Húsið kom tilhöggvið frá Noregi.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 31. ágúst 1970 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Norska húsið er tvílyft stokkbyggt timburhús með rismiklu valmaþaki, 15,43 m að lengd og 9,53 m á breidd. Húsið stendur á steinlímdum grjótsökkli, veggir eru klæddir vatnsklæðningu og þak rennisúð. Á mæni sunnanverðum er timburklæddur reykháfur. Við austurhlið syðst er inngönguskúr með pappaklæddu skúrþaki, 4,30 m að lengd og 2,35 m á breidd. Skúrinn er klæddur listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á suðurhlið hússins eru níu póstagluggar með 16 rúðum, sex á bakhlið og fjórir á hvorum gafli. Útidyr eru á miðri suðurhlið og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi að ofan. Til hliðar við dyrnar eru skoraðar flatsúlur og bjór yfir studdur kröppum.

Inn af útidyrum er forstofa og stigi innar í miðju húsi. Í norðurenda hússins er sölubúð, búr sunnan megin forstofu og inn af því í suðausturhluta er eldhús með opnu eldstæði. Inn af forstofu er fatahengi og snyrting. Á miðhæð fram af stigahúsi er „kabinett“ Árna Thorlacius við vesturhlið og stór stofa hvorum megin þess en fimm herbergi eru í austurhluta hússins. Innangengt er milli herbergja á 2. hæð. Í risi er geymsla. Veggir jarðhæðar eru flestir klæddir standþiljum en á aðalhæð eru veggir klæddir standþili, spjaldaþili og stofurnar brjóstþili með veggfóðri að ofan.Yfir herbergjum öllum er loft á klæddum bitum. Súðin er klædd rennisúð á langböndum. Húsið er málað að innan nema rishæðin.


[1]Hörður Ágústsson. Norska húsið í Stykkishólmi, 35-83. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1989.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Norska hússins.