Norska sjómannaheimilið, Siglufirði, Aðalgata 27
Byggingarár: 1915
Athugasemd: Teiknað og tilsniðið í Haugasundi í Noregi.
Hönnuður: Ókunnur.
Breytingar: Í upphafi voru steinsteyptar tröppur og útidyr á miðri framhlið hússins, samkomusalur í vesturenda en lesstofa, eldhús og læknisstofa í austurenda og tvær sjúkrastofur og herbergi starfsfólks þar í risinu og geymslur í kjallara.
Á árunum 1985–1986 var gert við húsið, ýmsu breytt í frágangi þess og fyrirkomulagi innan húss og það síðan tekið í notkun fyrir Tónlistarskóla Siglufjarðar. Fiskbúð hefur verið í kjallara í vesturenda um áratugaskeið.[1]
Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 26. ágúst 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.
Norska sjómannaheimilið er einlyft portbyggt timburhús með lágt risþak, 16,7 m að lengd og 9,13 m á breidd. Húsið stendur á háum steinsteyptum kjallara, veggir eru klæddir plægðri og strikaðri vatnsklæðningu og hornborðum. Þak er lagt norskum skífum, tveir þakgluggar eru á því hvorum megin og skornar sperrutær undir þakbrúnum. Að kjallara eru dyr á hvorum gafli og að auki vörudyr með vængjahurðum á vesturgafli og miðri suðurhlið. Kjallaragluggar eru fimm, tveir á norðurhlið og þrír á suðurhlið og í þeim ýmist glerrúður eða plötur. Á hvorri hlið hússins að vestanverðu eru þrír stórir tvíkrosspóstagluggar en þrír minni krosspóstagluggar hvorum megin á austurenda. Á austurgafli eru tveir tvíkrosspóstagluggar, einn krosspóstagluggi og einn sex rúðu póstgluggi. Í gluggum er tvöfalt gler og þverrimar utan og innan á gleri. Útidyr eru á austurgafli og að þeim trétröppur.
Inn af dyrum er forstofa, skrifstofa er í norðausturhorni en geymsla og stigi gegnt henni að sunnanverðu. Inn af forstofu er gangur og upptökuherbergi norðan megin í húsinu en salerni og kaffikrókur sunnan megin. Tónlistarsalur er í innri helmingi hússins í vesturenda. Upp af stiga er framloft og þrjár kennslustofur. Veggir og loft á jarðhæð og í risi eru plötuklædd. Yfir tónlistarsal er súð og skammbitaloft og hann er allur panelklæddur að innan. Í kjallara er steinsteypt gólf, veggir ýmist hlaðnir úr steinsteyptum steinum eða smíðaðir úr timbri og plötuklæddir. Yfir austurhluta kjallara er loft á bitum en plötuklætt loft í vesturenda.
[1]Bragi Magnússon. Norska sjómannaheimilið á Siglufirði. 1997; Örlygur Kristfinnsson. Af norskum rótum, 223. Mál og menning. Reykjavík 2003; Eysteinn Aðalsteinsson. Viðtal 2005.